143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[19:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég er hjartanlega sammála því að mér finnst að greinar eins og sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan og fleiri aðilar mættu leggja meira af mörkum. Í þjóðfélaginu eru sem betur fer mjög margir meira en aflögufærir og eiga að leggja sitt til samfélagsins og sýna samfélagslega ábyrgð. Þessir aðilar eiga ekki eingöngu að hugsa hvað ríkið geti gert fyrir þá, þeir eiga að hugsa hvað þeir geti gert fyrir landið sitt til að búa öllum sem best kjör. Sú gamla mýta hefur fylgt hægri stjórnum í gegnum tíðina að lyfta eigi þeim sem vel eru settir og hafa komið ár sinni vel fyrir borð, að létta eigi af þeim sem mestum álögum, að þeir þurfa ekkert að borga neitt, að skattar séu af hinu slæma. Þetta er brauðmolakenningin: Þeim mun minni skattar sem greiddir eru til samfélagslegra verkefna og velferðarmála þeim mun betra, það fjármagn hlýtur þá að leka út um allt þjóðfélagið, líka til þeirra sem eru bágstaddir og fátækir. Allir finna þá sinn brauðmola sem dettur af borði hinna ríku og allir geti lifað sáttir við sitt.

Ég er mjög hrædd um að ef við höldum ekki rétt á málum verði hér stéttskipt þjóðfélag í framtíðinni. Við sjáum ákveðin (Forseti hringir.) teikn á lofti um að það sé að gerast.