143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[19:50]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Kall hefur borist úr tveimur áttum sem tengist umræðu um þetta frumvarp. Annars vegar hefur borist neyðarkall úr heilsugæslunni í Reykjavík. Þar hafa fjórir aðilar lýst áhyggjum yfir því sem kemur til með að gerast á þeim vettvangi á þessu ári. Í fyrsta lagi eru það stjórnendur heilsugæslunnar sem segja að það stefni í mikinn vanda og að hún geti ekki sinnt skyldum sínum ef ekki verður komið með viðbótarfjármagn þar inn. Í annan stað höfum við heyrt frá heilsugæslulæknum, forsvarsmönnum þeirra, sem tala í sömu átt.

Ungur læknir, Már Egilsson, skrifaði opið bréf og bréf til allra þingmanna þar sem hann spurði hvort það stæði til að koma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir kattarnef. Í fjórða lagi barst ákall frá bráðaþjónustunni á Landspítalanum sem sagði að álagið á bráðaþjónustunni væri í réttu falli við niðurskurðinn hjá heilsugæslunni eða í öfugu hlutfalli, því meiri sem niðurskurðurinn væri þar þeim mun meira álag væri á bráðaþjónustunni. Allir færðu þessir aðilar rök fyrir því að niðurskurðurinn í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins yrði íþyngjandi fyrir heilbrigðiskerfið almennt.

Það kom fram í þessari umræðu að heilsugæslan hefur átt við vanda að stríða á undanförnum árum. Þar var mikill skuldahali upp á hálfan milljarð sem fyrri ríkisstjórn frysti og gerði samkomulag um að yrði skorinn niður. Það er verið að gera það að hluta til, 400 milljónir verða þar skornar af en eftir standa 100 milljónir sem heilsugæslunni er gert að greiða. Niðurskurðurinn í heilsugæslunni nemur samkvæmt fjárlögum um 100 millj. kr. Menn hafa talað um að þar komi 32 milljónir á móti henni til hjálpar en það er af allt öðrum toga. Það er fjármagn sem var ákveðið á síðasta ári og er til stuðnings börnum með þroskafrávik og kemur ekki einu sinni til með að útrýma biðlistum þar og gerir ekkert fyrir heilsugæsluna að öðru leyti. Hún er sem sagt í miklum vanda, þarf að glíma við 100 millj. kr. niðurskurð svo þetta er sannkallað neyðarkall sem berst úr þessari átt frá læknum, forsvarsfólki og það er kall sem okkur ber að taka mjög alvarlega.

Síðan er það annað kall, ég vil ekki kalla það neyðarkall, ég vil kalla það ákall. Það er ákall sem kemur frá ungum sjálfstæðismönnum, hygg að þeir séu, Heimdallur og Samband ungra sjálfstæðismanna, sem hafa skrifað öllum þingmönnum bréf. Ég hugsa að þetta séu nokkur hundruð bréf sem hafa borist þar sem hæstv. fjármálaráðherra er beðinn um að verða við þeirra hugsjónakröfu um að lækka gjald á brennivíni. Nú er spurningin: Á hverja hlustar þessi ríkisstjórn? Hvers vegna kom mér þetta í hug þegar ég las greinargerð með þessu frumvarpi? Það kemur nefnilega fram í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu að lækkunin á áfengisgjöldunum á þessu ári komi til með að nema um 190 millj. kr. Ég nefndi nokkrar stærðir hjá heilsugæslunni, 100 millj. kr. niðurskurðarkrafa, 100 millj. kr. hali, en á hana er ekki hlustað. Það er hlustað á unga hugsjónafólkið í Sjálfstæðisflokknum, frjálshyggjufólkið sem finnst mikilvægast á Íslandi nú um stundir að lækka verð á brennivíni. Á þetta fólk hlustaði hæstv. fjármálaráðherra og um þetta fjallar þetta frumvarp. Það fjallar um þetta. Það fjallar um þessa forgangsröðun.

Ég hef orðið var við það að eftir að Alþingi tók til umfjöllunar í stuttri umræðu stöðuna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins nýlega er fólk að vakna til vitundar um hvað er að gerast þar og það krefst aðgerða. En á heilsugæsluna er ekki hlustað. Ég hef heyrt fulltrúa Sjálfstæðisflokksins innan þings sem utan tala um þá allsherjarlausn eina ferðina enn að nú þurfi bara að einkavæða. Þá fái allir miklu hærri laun, þjónustan verði miklu betri og kosti miklu minna. Er þetta barnaskapur eða eru þetta grófar blekkingar? Þetta eru að sjálfsögðu grófar blekkingar. Það sem hér er um að ræða er þörf á auknu fjármagni.

Ég hefði náttúrlega getað farið aðeins aftar í tímann og minnt á auðlegðarskattinn, á gjafirnar sem ríkisstjórnin gaf kvótahöfunum, en ég ætla að staðnæmast alveg í núinu við kröfur unga frjálshyggjufólksins sem berst fyrir lækkun á brennivíni í búðum og svo hins vegar kröfum eða varnaðarorðum, alvarlegum varnaðarorðum sem berast frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mér finnst að við eigum að hugsa af mikilli alvöru um hvað hér er að gerast.

Síðan er annað sem ég vildi nefna varðandi þessa ríkisstjórn sem fyrir kosningar og í orði kveðnu segist vera andvíg sköttum, andvíg því að leggja álögur á fólk. Engu að síður ætlar hún að bæta heilbrigðisþjónustuna, hún ætlar að bæta menntakerfið, hún ætlar að bæta samgöngur í landinu. Það á að gera meira fyrir hafnirnar, vegina, flugvellina. Hvaðan koma peningarnir í þetta? Nú á að fara í Sundabraut. Hvaðan koma peningarnir fyrir þetta? Þeir koma eins og aðrir peningar úr okkar vösum, bara í öðru formi, vegna þess að til stendur að sjálfsögðu að rukka fyrir Sundabraut, til stendur að rukka fyrir aðgang að höfnunum, til stendur að rukka fyrir nýtingu flughafnanna. Að sjálfsögðu. Nú á sem sagt að gera allt en á þennan ólýðræðislega hátt. Þetta verður ólýðræðislegt og þetta verður ógagnsætt, þessi gjaldtaka verður þannig. Það er breytingin sem verður með þessari ríkisstjórn, að hún ætlar að fara ógagnsæjar leyniaðferðir við að innheimta kostnað við almenna þjónustu í landinu. Það er það sem hún ætlar að gera. Í stað þess að byggja á kerfi sem er réttlátt og jafnandi er það nefskattanálgunin, að allir borgi það sama alveg óháð því hverjar tekjur þeirra eru, hver fjárhagur þeirra er, allir greiða það sama. Þetta er grundvallarbreyting í stjórnmálum. Þetta er munurinn á hægri stefnu og vinstri stefnu og sá munur birtist okkur í hverju frumvarpinu á fætur öðru sem við fáum á okkar borð.

Þetta frumvarp sem við erum að ræða virkar ekki stórt eða mikið en það er mjög stórt. Það er táknrænt. Það er náttúrlega ekki aðeins táknrænt í einhverjum pólitískum skilningi. Það skiptir máli fyrir heilsugæsluna hve margar krónur renna til hennar, auðvitað skiptir það máli. Auðvitað skiptir máli hvort létt er sköttum af brennivíni, eins og er helsta hugsjónamál hæstv. fjármálaráðherra og ungra sjálfstæðismanna, eða hvort reynt er að koma til móts við heilsugæsluna í Reykjavík.

Hæstv. fjármálaráðherra hristir höfuðið og hlær við. Þetta er ekkert grín. Þetta er nefnilega ... (Gripið fram í.) Þetta eru þær hugsjónir sem birtast okkur. Þetta er veruleikinn. Mér þætti vænt um að hæstv. fjármálaráðherra kæmi hér í pontu og réttlætti þetta fyrir okkur, skýrði fyrir okkur hvernig stendur á því að hann hlustar á unga sjálfstæðismenn, unga samflokksmenn sína, unga hugsjónafólkið í Sjálfstæðisflokknum sem vill lækka verð á brennivíni í búðum, hvers vegna hann hlustar á það fólk en ekki hitt fólkið sem ber hag heilsugæslunnar í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu fyrir brjósti. Á hverju byggir hann val sitt? Er hæstv. fjármálaráðherra reiðubúinn að koma hingað í pontu og skýra fyrir okkur hvernig stendur á því að hann ætlar að lækka verð á brennivíni um 190 millj. kr. en neitar að falla frá áformum um niðurskurð í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um 100 millj. kr. Hvernig stendur á því? Getum við fengið svör við því? Þetta er ekkert grín. Þetta er alvara. Niðurskurðurinn í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu þýðir að segja þarf upp fólki, það þarf að draga saman þjónustuna. Vakir það fyrir ríkisstjórninni og hæstv. fjármálaráðherra að láta það ganga eftir til þess að unnt sé að einkavæða þessa þjónustu? Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra vera að daðra við þær hugmyndir í dag þegar menn voru að ræða í þingsal makalausar hugmyndir og útleggingar prófessors við Háskóla Íslands, Ragnars Árnasonar, sem sagði að eitt það skelfilegasta sem hefði komið fyrir þetta land væri samfélagslega rekin heilbrigðisþjónusta. Rugl, kann einhver að segja og ég skal taka undir það. Og hæstv. fjármálaráðherra landsins daðrar við slíkar hugmyndir og ríkisstjórnin sýnir síðan vilja sinn í verki með því að hunsa óskir frá heilsugæslunni en verður við kröfum unga samflokksfólksins síns sem berst fyrir því að lækka hér verð á brennivíni og bjór.

Hæstv. forseti. Þess vegna spyr ég: Er rétt að ljúka þessari umræðu áður en við heyrum hæstv. fjármálaráðherra skýra fyrir okkur á hvaða forsendum hann byggir val sitt? Hvers vegna er það? Var þetta rætt í á ríkisstjórnarfundi? Voru menn með þessa valkosti á ríkisstjórnarborðinu? Hvað eigum við að gera? Hvað finnst Framsókn? Getum við fengið að heyra sjónarmið framsóknarráðherranna og ykkar hinna, ágætra samráðherra úr Sjálfstæðisflokknum? Hvort eigum við að gera? Hvort eigum við að hlusta á heilsugæsluna í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu, eða unga frjálshyggjufólkið? Var þetta ákveðið svona?

Mér þætti vænt um að heyra á hvaða forsendum ríkisstjórnin komst að þessari makalausu — makalausu — niðurstöðu.