143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr fjárlagafrumvarpinu þar sem fjallað er um heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, með leyfi forseta:

„Áformað er að endurskipuleggja þjónustu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu en markmiðið er aukin afköst og bætt þjónusta. Skipulag heilsugæslunnar verður endurskoðað á grundvelli fyrirliggjandi tillagna um fjölbreytni í rekstrarformum auk þess sem stjórnkerfið verður einfaldað.“ (ÖJ: Það er bara einkavæðing.) — Ja, bara einkavæðing, ég nefndi það í umræðunni fyrr í dag að þær stöðvar sem hafa verið reknar með því fyrirkomulagi hafa sýnt gríðarlega góð afköst. Það eru líka dæmi um stöðvar sem reknar eru með hinu hefðbundna fyrirkomulagi sem sýna ágætisafköst en meðalafköstin á stöðvunum … (ÖJ: Nú eru menn farnir að sýna sitt rétta andlit.) — Nú færist hv. þingmaður allur í aukana. Staðreyndin er sú að þetta snýst á endanum um að auka afköstin, bæta kjörin og tryggja hámarksnýtingu þeirra fjármuna sem við tökum við frá skattgreiðendum í landinu og dreifum aftur út til að veita velferðarþjónustu og aðra þjónustu. Um það snýst málið. Ég er einfaldlega ósammála hv. þingmanni þegar hann segir að reynsla annarra þjóða af því sé slæm. Hún er góð, hún er heilt yfir mjög jákvæð, (ÖJ: Nei.) enda hafa menn gengið (SSv: Hvar?) töluvert lengra en við gerum hér. Ég nefni sem dæmi það sem hefur gerst í Svíþjóð (ÖJ: Já.) þar sem menn hafa verið með mun hærra hlutfall einkarekstrar í kerfinu en á við á Íslandi, miklu hærra. (Gripið fram í.)

Ég get líka nefnt dæmi héðan af heimaslóð ef við tækjum t.d. augnsteinaaðgerðirnar sem voru boðnar út fyrir nokkrum árum. Við eyddum á örfáum mánuðum löngum biðlistum með lægri tilkostnaði en áður hafði verið. (ÖJ: Það er rangt.) — Það er ekki rangt. (ÖJ: Jú.) Það voru biðlistar og þeir hurfu. (ÖJ: Þetta er ósanngjarnt.) Það er ekki hægt að mótmæla því, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) — Nei. (Gripið fram í.)

Ég þakka (Gripið fram í.) annars fyrir ágæta málefnalega umræðu. (ÖJ: Það er það sem þeir eru að fara að gera núna. Fólk mun aldrei …)

(Forseti (SJS): Forseti biður um ró í salnum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lokið að svara andsvörum.)