143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er enn svolítið ringlaður yfir því hvernig þessi breyting á fyrirkomulaginu við tóbakssölu eigi að búa til einhverja peninga fyrir ríkið. Þetta eru 460 milljónir. Hagnaður ÁTVR var um 3 milljarðar, ef ég man rétt. Mér finnst þetta svolítið há tala miðað við það, 1/6 eða svo, en velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra geti útskýrt fyrir mér aðeins betur hvernig svona breyting á fyrirkomulagi við álagningu tóbaksgjalds geti skilað auknum arðgreiðslum ef markmiðið og áhrifin af frumvarpinu eru að lækka tóbaksgjaldið. Ég skil þetta ekki alveg. Ég er ekki næstum jafn klár og fólk heldur að ég sé. Ég vona að hæstv. ráðherra geti útskýrt þetta fyrir mér.