143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[21:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur ekki á óvart að gildistökuákvæðum, sem lúta að varúðarreglunni, mengunarbótareglunni, og öðrum þáttum sem augljóslega var ágreiningur um, sé frestað. Ég hélt þó að ákveðnir þættir í málinu væru nægilega þroskaðir til þess að það mætti leyfa þeim að taka gildi. Ég vil hvetja hv. formann, vegna þess hversu vel hann hefur haldið á málinu og vegna þess að málið var afgreitt úr nefndinni áður en úrskurðurinn féll um gjaldtökuna við Geysi, til að skoða það sérstaklega, því ég held að það sé einnar messu virði, hvort einhver leið sé til þess að styrkja almannaréttinn í núgildandi löggjöf okkar með gildistöku á einhverjum ákvæðum. Ég vil satt að segja ekki trúa því að við hér á Alþingi höfum ekki búið betur um almannaréttinn en svo að hægt sé að meina mér, Íslendingi, för um ættland mitt, Ísland, og krefja mig gjalds; og ef ég inni það ekki af hendi sé hægt að gera mig afturreka í móðurlandi mínu.