143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[21:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel afar mikilvægt að halda því til haga að í því andrúmslofti sem uppi var þegar hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir frumvarpinu á sínum tíma horfðist nefndin í augu við töluverða áskorun og ekki síst formaður nefndarinnar. Aðkoma nefndarinnar var nokkuð óvenjuleg og niðurstaðan farsæl. Mig langar að geta þess sérstaklega í þessu andsvari að ég tel mjög mikilvægt að það þverpólitíska andrúmsloft sem tekist hefur að skapa í nefndinni og það traust sem nefndin byggði vinnu sína á, eða það traust sem nefndin nánast byggði upp í vinnu sinni, sé lagt til grundvallar við endurskoðunina til að freista þess að halda samfellunni áfram inn í framtíðina og fram í næstu skref.

Ég tek undir það að ég vænti þess að hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, hafi lært töluvert af þessu verklagi (Forseti hringir.) og muni fleyta því í fallegum dómínóáhrifum (Forseti hringir.) inn í aðkallandi (Forseti hringir.) verkefni næstu vikna.