143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda.

348. mál
[21:10]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan er alltaf sáttfús. Það vill svo til að oft er stjórnarliðið það líka og það er mér sannkölluð ánægja að mér er leyft að mæla fyrir þingsályktunartillögu, þverpólitískri, sem við flytjum sex þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi Íslendinga og felur í sér hörð mótmæli við lögum sem sett hafa verið í Úganda og fela í sér lögbundið og ríkisskylt ofbeldi gagnvart samkynhneigðum og hinsegin fólki.

Þessi lög hafa þegar verið staðfest af Museveni, forseta Úganda, en þau hafa hins vegar ekki tekið gildi. Þess vegna skiptir máli að mótmæli heils þjóðþings komi sem fyrst fram og nái eyrum þarlendra. Fregnir af þessari þingsályktunartillögu sem fulltrúar allra flokka flytja hafa þegar verið fluttar töluvert vel í Úganda. Af því að máli skiptir að málið nái fram að ganga áður en lögin taka gildi vil ég nota þetta tækifæri sérstaklega og flytja hæstv. forseta Alþingis þakkir, sem og formönnum þingflokka, fyrir að hafa beitt sér fyrir því að hliðra aðeins til á dagskrá til þess að koma málinu hingað til umræðu og síðan til nefndar.

Tillagan sem ég mæli fyrir er eiginlega ferþætt. Hún felur í fyrsta lagi í sér að lagt er til að Alþingi mótmæli mjög harðlega þeim lögum sem hafa verið sett gegn samkynhneigðum í Úganda. Í öðru lagi er hæstv. utanríkisráðherra, ef samþykkt verður, falið að flytja mótmæli þings og ríkisstjórnar til úgandskra stjórnvalda. Í þriðja lagi er hæstv. utanríkisráðherra falið að hagræða þróunaraðstoð gagnvart Úganda með þeim hætti að án þess að úr sé dregið að sinni séu stóraukin framlög til samtaka samkynhneigðra og hinsegin fólks í Úganda. Í fjórða lagi er svo hæstv. ráðherra fyrir hönd Íslands falið að leita samstöðu og samvinnu með öðrum þjóðum sem eru svipaðra skoðunar til að efla mótmæli gegn þessari ósvinnu.

Það skiptir máli að rödd lands eins og Íslands heyrist í máli af þessu tagi. Það má velta því fyrir sér hvað Alþingi Íslendinga sé að gera með því að skipta sér af lögum innan annars lands. Það eru kannski tvær ástæður sem eru ríkastar fyrir því í þessu tiltekna máli. Í fyrsta lagi er það ríkur þáttur af utanríkispólitík og stefnu Íslands að berjast fyrir mannréttindum hvar sem er. Þar á meðal fyrir mannréttindum samkynhneigðra. Eitt af því sem mér hefur orðið gleðilegt á tímum mínum á Alþingi Íslendinga, frá því að ég settist hingað, er sú gagngera breyting sem hefur orðið á viðhorfum til samkynhneigðra og hinsegin fólks á Íslandi sem hefur ríkulega verið staðfest á Alþingi Íslendinga. Það er engin flokkspólitísk afstaða sem hefur verið tekin til réttindamála sem tengja samkynhneigð, a.m.k. ekki síðasta aldarfjórðunginn og mestan þann tíma ef ég setið hér og fylgst með því. Það er mjög ánægjulegt. Það er okkar hlutverk sem lítillar þjóðar að tala máli þeirra sem eru kúgaðir, hvort heldur það eru aðrar smáþjóðir eða minnihlutahópar, hvar sem er.

Í öðru lagi skiptir ekki síst máli að við látum til okkar taka gagnvart Úganda. Ástæðan er sú að við eigum í formlegum tengslum við Úganda að því marki að við eigum í þróunarsamvinnu með Úganda. Það felur í sér að Úganda er eitt af þremur ríkjum sem við eigum í slíkum formlegum tengslum við. Á hverju ári renna úr íslenska ríkissjóðnum töluvert miklar upphæðir til að styðja við þróun mála í Úganda. Það er þess vegna sem við höfum á ákveðinn hátt siðferðilegan rétt til að láta sérstaklega að okkur kveða þarna.

Í þingsályktunartillögunni er líka reifaður sá möguleiki að þótt tekið sé fram að að sinni sé ekki rétt að draga úr þróunaraðstoð til Úganda kunni að draga að því að Ísland endurskoði hugsanlega samvinnu sína á þessu sviði við Úganda. Ég er þeirrar skoðunar að ef rík samvinna tekst meðal þjóða til að láta til sín taka og hugsanlega að reyna að ná fram breytingum hjá Úganda með því að sameinast um að draga að minnsta kosti tímabundið úr þróunaraðstoð sinni, eigi Ísland að velta því sterklega fyrir sér.

Ég orðaði það svo í orðaskiptum sem ég átti við hv. þm. Birgi Ármannsson, formann utanríkismálanefndar, hér fyrir örfáum dögum að það væri að minnsta kosti einnar messu virði að skoða. Hv. formaður utanríkismálanefndar var mér sama sinnis, að skoða það. Ég tel að þetta sé eitt af málum sem við eigum að ræða í hv. utanríkismálanefnd og reyna að komast að samstöðu um. Þetta af þeim toga sem á að sameinast um. Það er þess vegna sem mér finnst hrósvert hjá Alþingi Íslendinga að á tímum þar sem hafa verið róstur og úfar risið í stjórnmálunum út af ýmsum minni háttar málum síðustu viku, hefur mönnum samt tekist að ná samstöðu og halda henni í málefnum sem hægt er að telja til grundvallarviðhorfa. Það er gleðilegt og það er heilbrigðismerki fyrir Alþingi Íslendinga.

Þau lög sem um ræðir og voru samþykkt á úgandska þinginu eru hrollvekjandi. Þau bætast ofan á lög sem áður voru þar við lýði og bönnuðu ástir karlmanna. Núna ná lögin líka yfir lesbíur, en þar að auki bætist við að lagt er lífstíðarfangelsi sem hámarksrefsing við því að vera samkynhneigður eða hinsegin. Sömuleiðis er sú hræðilega skylda og kvöð lögð á borgarana að upplýsa og uppljóstra um þá sem eru samkynhneigðir. Hvað þýðir þetta? Það þýðir til dæmis að lagaskylda hvílir á móður að ljóstra upp og greina stjórnvöldum frá því hvort sonur eða dóttir er samkynhneigð eða hinsegin. Systkini er skylt að ljóstra upp um annað systkini með þeim afleiðingum að það getur hugsanlega farið í lífstíðarfangelsi.

Þetta er eitt af þeim dæmum sem maður getur ekki einu sinni hugsað upp í martröðum sínum en eru samt til. Það er okkar skylda, tel ég, að stappa hraustlega niður fæti og mótmæla þessu. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er það ekki bara vegna þess að við erum ríki sem hefur sem betur fer grundvallarviðhorf sem beinast gegn háttsemi af þessu tagi, heldur líka vegna þess að við erum í sérstökum samvinnutengslum við Úganda. Það er eitt af því jákvæða við hið íslenska samfélag og eitt af því sem gerir það að verkum að maður getur verið glaður og stoltur yfir því að tilheyra því, að þetta er orðið viðhorf alls þorra almennings til samkynhneigðra og hinsegin fólks.

Við höfum einfaldlega í verki og í lögum og reglum gengist við því að við erum öll jafnir geislar sólarinnar og það eigi að leyfa öllum að skína jafnt og það eigi að vera pláss fyrir alla. Það er hið góða sem má segja að einkenni íslensk stjórnmál, að þótt okkur kunni að greina á um leiðir að markinu eru í reynd allar stjórnmálahreyfingar sammála því að finna öllum tækifæri til þess að blómstra miðað við getu sína og finna pláss fyrir alla. Þetta er partur af því.

Við berjumst alls staðar gegn mismunun, berjumst alls staðar gegn því þegar fólki er mismunað af einhverjum hlutum og ekki síst vegna kynhneigðar. Það er orðinn partur af löggjöf okkar. Það er orðinn partur af utanríkismálastefnu okkar. Þess vegna er fyllilega tímabært og réttmætt að íslenska þingið, Alþingi, láti til sín taka og mótmæli lagasetningu af þessu tagi, ekki aðeins í Úganda heldur líka með þeim hætti sem Íslendingar hafa mótmælt svipuðum lagasetningum, þó ekki líkt því eins ströngum, sem hafa verið í öðrum löndum t.d. Rússlandi. Þetta er rökrétt framhald af því sem við höfum áður gert.

Herra forseti. Ég legg til að að þegar þessari umræðu sleppir verði málinu vísað til vinnu og meðferðar hjá hv. utanríkismálanefnd.