143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda.

348. mál
[21:20]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir flutning hans og fyrir að leggja fram þessa tillögu. Ég styð hugmynd hans til góðra verka og það markmið að samkynhneigðir njóti sömu réttinda og aðrir.

Mig langar að benda á blaðagrein sem ég rakst á, ef þingmaðurinn hefur ekki rekist á hana, að mig minnir í Fréttablaðinu. Þar segir Úgandamaður sem búsettur er hér á landi að vandinn sé sá að samkynhneigðir vaði sumir hverjir í peningum og stundi það að fara í fátæk þorp, leita þar uppi ungmenni og bjóða þeim peninga, menntun og jafnvel atvinnu fyrir að gerast samkynhneigðir. Hann segir einnig að honum hafi verið gert slíkt tilboð, en hann hafi hafnað því vegna þess að hann hafði engan áhuga.

Mig langaði að benda á aðra hlið á þessu máli. Annað sem greinarhöfundur nefnir er að þessi lög hafi verið samþykkt vegna þrýstings frá Vesturlöndum. Hann bendir á að Úgandamenn vilja ekki láta þröngva sér til neins. Ég vil því að við vinnum þetta með þeim og förum varlega og þrýstum ekki á þá. Miðað við þessi orð gæti það haft slæmar afleiðingar í för með sér.

Þetta voru aðeins ábendingar frá mér til hv. þingmanns, en ég styð að öllu leyti þetta mál.