143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda.

348. mál
[21:24]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum svörin. Kannski hann kenni mér þá list að lesa ekki blöðin svo að ég verði jafn klár og hann í öllum málum.

Mig langar að nefna eitt úr blaðagreininni þar sem þessi heimamaður virðist segja að hann áttaði sig á því með dvöl sinni á Íslandi, hann hefur verið hér í fjögur ár, sem hann vissi ekki áður, að fólk getur fæðst samkynhneigt. Fyrir mér er það bara þekking sem við þurfum að fara með til þeirra, og hann vill gera það. Þetta eru náttúrlega mismunandi menningarheimar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Gefum okkur að þingsályktunartillagan verði samþykkt og fari í gegn, sem fulltrúar úr öllum flokkum styðja, hver er eftirfylgnin með svona þingsályktun? Nú er bara ungur þingmaður að spyrja eldri, sem er samt ungur líka, hver er eftirfylgnin með slíkri þingsályktun svona almennt? Hvaða tæki höfum við í þinginu til að fylgja henni eftir og snúa við hinni slæmu löggjöf í Úganda? Getur þingmaðurinn uppfrætt mig um það?