143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þær fréttir sem berast af starfi verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála vekja mér áhyggjur. Í skýrslum til félagsmálaráðherra er lagt til að Íbúðalánasjóður hætti starfsemi í núverandi mynd og verði skipt upp í tvo hluta, annars vegar þann sem sæi um vörslu þegar veittra lána og innheimtu þeirra og hins vegar þann sem hefði með félagslegan þátt húsnæðismála að gera. Í framhaldinu yrðu sett lög um húsnæðislánafélög sem gætu starfað innan banka og annarra lánastofnana og hefðu það eina hlutverk að lána til húsnæðiskaupa.

Vissulega er ekki komin niðurstaða í þessi mál en ég hef áhyggjur og sporin hræða. Ég tel stórhættulega breytingu í framboði húsnæðislána að láta Íbúðalánasjóð hverfa alfarið af markaði. Þó að gagnrýni hafi verið uppi á Íbúðalánasjóð hefur hann fyrst og fremst sinnt þörfum landsbyggðarinnar og láglaunafólks þegar aðrar lánastofnanir hafa komið sér undan því að lána til þeirra svæða sem uppfylla að þeirra mati ekki markaðslegar forsendur.

Það hefur lengi verið baráttumál Sjálfstæðisflokksins að leggja Íbúðalánasjóð niður og koma allri lánastarfsemi inn í banka. Við þekkjum það frá fyrri tíð. Mér finnst þetta mál allt lykta af því að menn séu í þessari uppstokkun á húsnæðismálakerfinu til að fá þann draum uppfylltan. Ég vona þó að Framsóknarflokkurinn standi vörð um Íbúðalánasjóð.

Eins og það er brýnt að endurskoða húsnæðismálin má það alls ekki verða á kostnað landsbyggðarinnar og lágtekjufólks í landinu. Markaðsöflin ein mega ekki ráða ferð. Ég bíð spennt eins og aðrir eftir niðurstöðu í þessi mál (Forseti hringir.) en ég tel mjög mikilvægt að stjórnarandstaðan komi þétt að þessum málum eins og þau eru stödd núna.