143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær var meðal annars umræða um grein formanns ráðgjafaráðs hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssonar, Ragnars Árnasonar. Hann hefur birt grein undir yfirskriftinni „Samfélagsleg skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga“.

Það má hrósa hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir skýr svör við fyrirspurnum hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Hann segir að vísu að umræða um þessa grein eigi ekki erindi í þingsal þar sem þetta sé ekki grein sem hæstv. ráðherra hafi sjálfur teflt fram. Hann segir hins vegar mjög skýrt að hann sé áhugamaður um að auka hlut einkaaðila í að veita opinbera þjónustu á kostnað ríkisins, þá með því að draga úr þjónustunni á hendi ríkisins, svo við getum, með leyfi forseta, „virkjað krafta einkaframtaksins í auknum mæli í heilbrigðiskerfinu“.

Þarna er um að ræða afar skýra stefnumörkun hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem mér finnst full ástæða til að vekja athygli á. Hér er um að ræða grundvallarafstöðu í pólitík og líka fyrirheit um grundvallarbreytingu á íslenska velferðarkerfinu.

Mig langar til að vekja athygli þingsins á þessu vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að miklar breytingar af þessum toga fái djúpa og ítarlega pólitíska umræðu í þingflokkunum. Ég beini orðum mínum sérstaklega til þingflokks Framsóknarflokksins í þessu efni þar sem ég held að það væri afar slysalegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, ef fram kæmu róttæk og afgerandi frumvörp í einkavæðingarátt á vakt Framsóknarflokksins án þess að flokkurinn hefði haft ráðrúm til að bregðast við.