143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þeir hafa ekki farið fram hjá neinum þeir miklu erfiðleikar sem eru á þessum erfiða og snjóþunga vetri, erfiðleikar við að komast um Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar sem er í raun önnur aðalleiðin til landsins á móti Keflavíkurflugvelli.

Ég vil vekja athygli á því að ég held að þetta hafi aldrei verið eins slæmt og í vetur og þess vegna trúi ég ekki öðru en að í væntanlegri samgönguáætlun, sem stjórnarflokkarnir eru með á borðum hjá sér í þingflokkum, en hefur ekki enn verið lögð fram, sé gert ráð fyrir því rannsóknarfé sem þarf, 300 millj. kr. næstu tvö ár, til að fullkanna og rannsaka hönnun væntanlegra Seyðisfjarðarganga. Það er að mínu mati eina raunhæfa leiðin til að tryggja fullkomnar og góðar samgöngur til og frá Seyðisfirði.

Ég vek athygli á því að ferjan Norræna kemur þangað vikulega og hafa fiskflutningar með henni til Evrópu aukist mjög hin síðari ár. Þess vegna er ekki hægt að una því árið 2014 að þetta sé með þeim hætti sem ég hef gert hér að umtalsefni. Ég geri ráð fyrir því að aðrir þingmenn séu jafnfréttaþyrstir og ég og hafi heyrt frétt í gær af ferð með sjúkling um Fjarðarheiði þar sem nokkra björgunarsveitarbíla þurfti til að koma sjúklingi þar yfir.

Þetta vildi ég segja um þá framkvæmd sem þarna verður að eiga sér stað. Þegar ég tala um þetta rannsóknarfé þá tala ég um það sem nauðsynlegan þátt til að hefja megi framkvæmdir við Seyðisfjarðargöng um leið og hinu góða verki við Norðfjarðargöng lýkur haustið 2017.