143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Nýlega bárust upplýsingar um væntanlega samgönguáætlun sem Sundabrautin kæmi inn í að nýju og áform um að taka upp einkaframkvæmd. Þessu tengt hefur verið umræða um að einkahlutafélagið Spölur skili Hvalfjarðargöngunum með gangagjaldi sínu til ríkisins í júlí 2018. Menn hafa gjarnan horft til þess að gjaldtöku verði haldið áfram í göngunum eða á nýrri Sundabraut til að fjármagna framkvæmdir á þessum leiðum.

Sjálfur hef ég talað fyrir því að það hefði átt að leggja gangagjald í Hvalfjarðargöngunum af fyrir löngu, einfaldlega vegna þess að það hefur þróast þannig að þetta er eina leiðin að og frá Reykjavík sem er gjaldtaka á og bitnar mest á þeim sem nýta þessa leið mest, þeim sem búa næst göngunum. Á sama tíma hafa verið mjög stórar framkvæmdir á Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi og þar hefur ekki náðst nein samstaða um gjaldtöku. Ég ætla rétt að vona að ekki nokkrum einasta manni detti í hug að framlengja gangagjaldið eða setja gjaldtöku á þennan veg umfram alla aðra án þess að taka gjöld neins staðar við nýjar framkvæmdir vegna þess sem þar er verið að setja í gang. Vaðlaheiðargöngin eru að vísu undantekning, þar hafa menn farið í einkaframkvæmd sem er sambærileg við það sem var á Hvalfjarðargöngunum á sínum tíma.

Ég tók þetta baráttumál upp 2007 en eftir að hrunið varð 2008 hef ég ekki haldið þessu máli mikið á lofti vegna þess sem það hefði kostað ríkissjóð að fara með þær skuldir yfir til ríkisins, um 4 milljarða. Ég taldi það ekki forgangsverkefni á þeim tíma.

Ég ítreka þó þessa skoðun núna og treysti á að þingheimur láti það ekki gerast enn einu sinni að ekki verði tekin heildstæð afstaða um það hvernig gjaldtaka eigi að vera varðandi vegaframkvæmdir þannig að því verði jafnað á þá sem nota þessa vegi að og frá Reykjavík. Mér finnst mikilvægt að þetta sjónarmið (Forseti hringir.) komi fram strax í þinginu við þessar umræður um Sundabraut.