143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

staða framhaldsskólans.

[15:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og hæstv. ráðherra fyrir að vekja máls á þessu og fyrir svörin. Ég vil þó aðeins ítreka nokkrar af þeim spurningum sem fram komu í máli hv. málshefjanda því að það hefur verið nokkuð misvísandi hvað komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra um hvort hann telji lögin frá 2008 vera fullnægjandi ramma eða hvort hann hafi í hyggju einhverjar frekari breytingar eins og jafnvel hefur verið gefið í skyn af sjálfum hæstv. ráðherra, þ.e. frekari lagabreytingar eða námskrárbreytingar til að stytta nám til stúdentsprófs. Staðreyndin er sú að lögin frá 2008 voru niðurstaða mikils samráðs. Þau endurspegluðu ákveðna málamiðlun og gáfu þennan sveigjanleika. Þegar sett var ákveðið lágmark á einingafjölda, sem ég kannast nú við þar sem ég setti það sjálf, var líka undanskilið að heimildir væru fyrir skóla til að hafa þetta breytilegt og mislangt.

Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra þarf að skýra það því að sá misskilningur er að minnsta kosti greinilega uppi í umræðunni að menn óttast að hér sé ætlunin að draga úr þessum sveigjanleika og setja þak á einingafjöldann. Við því þurfum við að fá skýr svör því að það er þá talsverð stefnubreyting frá niðurstöðunni í lögunum 2008. Auðvitað höfum við áhyggjur þegar í stjórnarsáttmála er sérstaklega vitnað til vinnu frá 2006, áður en þessi niðurstaða náðist, og auðvitað höfum við áhyggjur þegar í ljós kemur að hvítbókin, sem nú heitir víst áfangaskýrsla, er ekki unnin í formlegu samráði við fagfélög kennara.

Hæstv. ráðherra ræðir hér um brottfall og ég held að við getum öll verið sammála um að það er áhyggjuefni í skólakerfinu, en hverjar eru ástæður brottfallsins? Er það það að námið sé ekki nógu „intensíft“? Nei, helstu ástæður brottfallsins, eins og hefur komið fram, bæði í rannsóknum OECD og þeim könnunum sem menntamálaráðuneytið hefur gert, eru félagslegar og sálrænar ástæður sem bendir á að við þurfum að styrkja þann stuðning fyrir ungmennin okkar. Þau eru ekki með aðgang að skólahjúkrunarfræðingum eða sálfræðingum í skólum sínum eins og til að mynda nágrannaþjóðirnar. (Forseti hringir.) Ef við ætlum að fara í þennan samanburð á námstíma og brottfalli þurfum við líka að tryggja að aðbúnaðurinn sé með svipuðum hætti og annars staðar en ekki bara einingaramminn.