143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

staða framhaldsskólans.

[15:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Forseti. Framhaldsskólinn á Íslandi er í vanda. Í fyrsta lagi glímir hann við bága rekstrarstöðu. Fyrir hrun hafði mikil hagræðing farið fram í framhaldsskólanum og segja má að þá hafi fitan verið skorin af rekstri skólanna. Eftir hrun var síðan gerð hagræðingarkrafa á framhaldsskólana sem sett var í svipaðan flokk og velferðarmál þar sem gerð var minni krafa en til dæmis á almenna stjórnsýslu.

Samdrátturinn á síðasta kjörtímabili var þó samtals 2 milljarðar, þ.e. 12,7%, til viðbótar þeirri hagræðingu sem átti sér stað fyrir hrun. Ný ríkisstjórn gerði áfram kröfu um rúmlega 3% niðurskurð til viðbótar þótt ljóst hefði verið þá að framhaldsskólarnir þyldu ekki frekari niðurskurð við óbreytt skipulag og lögboðin verkefni.

Í öðru lagi glímir framhaldsskólinn við kjaradeilu. Viðurkennt er að framhaldsskólakennarar hafa dregist aftur úr hvað kjaraþróun varðar miðað við viðmiðunarhópa. Á árinu 2012 fóru fram viðræður á milli starfsmanna skrifstofu fjármálaráðuneytisins og Félags framhaldsskólakennara í samræmi við bókanir í kjarasamningi sem skiluðu ekki þeim árangri sem kennarar gátu sætt sig við. Nú er deilan í hnút en vonandi leysist hún farsællega sem fyrst því að miklir hagsmunir eru í húfi, bæði fyrir kennara, nemendur og samfélagið allt.

Í þriðja lagi stendur framhaldsskólinn frammi fyrir styttingu námstímans og það er í sjálfu sér markmið sem ég tel hagsmunamál nemenda og samfélagsins að stefna að. En krafan um að taka á því máli sem er umdeilt í miðri kjaradeilu eykur líklega enn á vandann, þ.e. ef ganga á lengra en lögin frá 2008 gera ráð fyrir.

Mér heyrðist á máli hæstv. ráðherra áðan að lögin frá 2008 væru útgangspunkturinn og að meta ætti breytingar sem þeim fylgja til kjarabóta. Þann útgangspunkt tel ég líklegri til að greiða fyrir auknum sveigjanleika í lengd námstímans og reyndar lausn kjaradeilunnar.