143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

staða framhaldsskólans.

[16:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í vinnu hóps sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði um hagnýtingu internetsins las ég skýrslu um hvernig menntamálum er háttað. Það er skýrsla frá World Economic Forum sem kom út í janúar á þessu ári og þar eru mjög áhugaverðir punktar um það hvernig framtíðarmenntun muni líta út. Og framtíðin er byrjuð.

Þar kemur fram að nýsköpun í nettengdri menntun getur bætt námsárangur og aukið aðgengi ásamt því að lækka kostnað. Tækifæri til verðmætasköpunar eru líka mikil því að meira fé er varið í menntun en í allan annan upplýsingaiðnað samanlagt.

Hversu fljótt við munum uppskera aukna hagsæld sem þessu fylgir veltur á því hversu fljótt námsefni viðurkenndra háskóla á netinu er metið til eininga, og þarna kemur að háskólunum.

Næstu tvö atriði varða framhaldsskóla og grunnskóla og þau tryggja aðgengi nemenda að nettengdri upplýsingatækni og kennslu í tölvulæsi til að hagnýta tæknina.

Nettengdar lausnir geta í dag aðstoðað kennara við að spá fyrir um námsárangur og áhuga nemenda og meta hvað nemandinn veit raunverulega. Þá geta slíkar lausnir einnig haldið nemendunum áhugasömum með námsefni sem hentar hverjum og einum hverju sinni. Nettengdar námssíður geta þannig bætt námsárangur ásamt því að lækka kostnað með auknu aðgengi að einstaklingsmiðaðra námi og betri yfirsýn kennara, skólastjórnenda og annarra sem hlut eiga að máli. Þarna er því hægt að auka áhugann og auka árangur nemenda, minnka brottfall og lækka kostnað.

Það er mikilvægt að nýta tækifæri upplýsingatækninnar og internetsins til að mennta menn á Íslandi og ég vil nefna að við erum komin mjög framarlega í heiminum hvað þetta varðar með fyrirtæki eins og Mentor og Skema. Ég hvet alla til að kynna sér þessi tækifæri. Þarna eru tækifæri til að leysa margt (Forseti hringir.) af því sem ég nefni hérna og þarna skapast líka svigrúm til að bæta kjör og starfsaðstæður kennara.