143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hugmyndir um gjaldtöku á ferðamannastöðum hafa mikið verið í umræðunni að undanförnu. Það er því mjög jákvætt að við séum öll orðin sammála um að brýnt sé að taka gjald af ferðaþjónustunni til að vernda og byggja upp innviði í náttúru Íslands til að hún spillist ekki. Ferðaþjónustan nýtir land og sérstöðu íslenskrar náttúru og fyrir það er eðlilegt að taka sanngjarnt gjald til að standa straum af nauðsynlegri vernd og uppbyggingu.

Ríkisstjórnin samþykkti síðasta haust að útfæra leið til fjármögnunar uppbyggingar og viðhalds á ferðamannastöðum. Einnig var samþykkt í kjölfarið að vinna tillögur um áætlun um vernd, uppbyggingu og viðhald innviða í íslenskri náttúru í þágu ferðaþjónustunnar. Um er því að ræða samstarfsverkefni sem bæði ráðherra ferðamála og ráðherra umhverfis og auðlinda koma að, þ.e. að gjaldtökuleiðin væri ferðamálamegin en vernd og uppbygging umhverfis- og auðlindamegin. Fjárþörf vegna þessa er töluverð og uppsöfnuð og hvað varðar til dæmis þjóðgarða, friðlýst svæði og önnur svæði í opinberri eigu á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis er hún áætluð af stærðargráðunni 1 milljarður á ári að minnsta kosti næstu fimm árin. Þar til viðbótar er síðan Þingvallaþjóðgarður og svæði í eigu einstaklinga og sveitarfélaga.

Verið er að leita að leiðinni að hentugu gjaldtökuformi á ferðaþjónustuna. Taka þarf tillit til sjónarmiða fjölmargra aðila og best er að geta sameinast um samræmt gjaldtökukerfi, þ.e. þjóðgarða, friðlýst svæði, sveitarfélög og landeigendur sem koma að uppbyggingu á innviðum íslenskrar náttúru.

Nokkrir möguleikar um gjaldtökuleiðir hafa skotið upp kollinum og er náttúrupassi einn þeirra sem felst í aðgengi að ákveðnum stöðum. Það form vekur upp spurningar um hver sé hin eiginlega hvatning fyrir hina ýmsu ferðamannastaði vítt og breitt um landið að gerast aðilar. Hvernig tryggjum við að allir taki þátt? Náttúrupassaleiðin í því formi sem hún hefur verið kynnt getur þrengt að réttindum almennings, þ.e. gjaldtaka á ákveðnum stöðum gegn því að þeir sömu staðir fái aðgang að fjármunum til uppbyggingar í þágu ferðaþjónustu að viðlögðum sektum ef viðkomandi greiðir ekki aðgangseyri.

Náttúrupassinn útilokar því ekki í þessu formi að landeigendur geti tekið upp sína eigin gjaldtökuleið eins og dæmin hafa sannað og ekki viljum við að gjaldtökuleiðin verði til þess að skapa gjá og togstreitu milli ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og almennings í landinu.

Annar möguleiki sem ræddur hefur verið sem gjaldtökuleið gæti verið í formi þess sem kalla mætti öryggis- og náttúrugjald, gæti líka kallast náttúrupassi, sem gæti verið einhvers konar útfærsla með fyrirmynd í svokölluðu ESTA-gjaldi Bandaríkjanna. Gæta þyrfti jafnræðis með slíku gjaldi og þyrftu Íslendingar einnig að greiða það að einhverju leyti. Sú leið er ekki ósvipuð núverandi veiðikorti til fuglaveiða og mundi ekki tengjast aðgengi að ákveðnum svæðum og ekki þrengja að almannarétti. Ég tel að það þurfi bindandi samkomulag, hvaða leið sem er farin, að ræða í nokkur ár milli ríkis, sveitarfélaga, landeigenda, björgunarsveita, útivistar- og umhverfissamtaka og ferðaþjónustunnar og tekjur væru skilgreindar til uppbyggingar á ferðamannastöðum á vernd og náttúru þeim tengdum.

Í löggjöf um þjóðgarða og friðlýst svæði eru til að mynda ákvæði um gjaldtöku fyrir veitta þjónustu sem lítið hafa verið virkjuð enn sem komið er en hafa verið í skoðun. Samhliða er brýnt að huga að því að setja reglur um fyrirkomulag gjaldtöku fyrir veitta þjónustu á ferðamannastöðum og reglur um almannarétt. Það gæti þurft að skýra til að reyna að koma í veg fyrir gjaldtöku fyrir för almennings um landið nema þegar einhver þjónusta er veitt.

Nýlegar uppákomur um gjaldtöku á óljósum grundvelli eru ekki heppilegar fyrir neinn. Í þessu samhengi er réttur almennings til frjálsrar farar um landið lögbundinn réttur borgaranna sem er eitt einkenni samfélags okkar og tengsla Íslendinga við eigið land. Ég get tekið undir með málshefjanda varðandi það.

Um þann rétt hygg ég að flestir Íslendingar vilji standa vörð. Almannaréttur er síður en svo úreltur og er viðurkennd regla í íslenskum lögum. Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt að undanförnu og ferðamönnum hefur fjölgað með tilheyrandi ágangi á landið og vaxtarverkjum. Því er brýnt að til sé stefnumótun og útfærsla á framkvæmdum og forgangsröðun fjármuna til einstakra verkefna. Enn er mörgum spurningum ósvarað þar að lútandi. Vinna þarf stefnumarkandi áætlun um vernd og uppbyggingu vegna nýtingar ferðaþjónustunnar á íslenska náttúru.

Í umhverfisráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps um slíka áætlun sem unnin yrði í nánu samstarfi við ráðuneyti ferðamála, samtök sveitarfélaga, ferðaþjónustuna, landeigendur og eftir atvikum aðra. Einnig mætti hugsa sér að landvarsla yrði á forræði sveitarfélaganna og fjármagnast með aðild að gjaldtökusjóðnum.

Þetta er mikilvæg umræða sem við verðum að fá niðurstöðu í sem fyrst. Fjárþörfin er til staðar, náttúran lætur á sjá og er í húfi. Það er eðlilegt að leggja gjald á ferðaþjónustuna til að standa straum af vernd og uppbyggingu náttúrunnar.

Ég legg til að við reynum saman að finna sem fyrst sanngjarna leið til að afla þeirra fjármuna sem þarf og hefjast handa við það verkefni. Þar má almannaréttur ekki verða settur í uppnám og er framkvæmdaáætlun um uppbygginguna miðlægt plagg í þeirri vinnu.