143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:29]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu sem er mikilvæg og þörf. Hér ræðum við um almannaréttinn sem er mikilvægur og búinn að vera lengi við lýði eins og komið var inn á. Við verðum að huga að því að aðstæður hafa breyst mikið frá því að þetta var. Hann var kannski ríkari í öðrum tilgangi áður fyrr, nú er það ferðaþjónustan og þörf okkar fyrir að ferðast og njóta útivistar um landið sem kallað hefur meira á þá kröfu að almannarétturinn sé virtur. Ekki ætla ég að gera lítið úr því, en þá þarf líka að huga að eignarréttinum í því ljósi. Margt hefur breyst á þessum tíma, t.d. hafa farartæki þróast mikið og ýmislegt annað, fjöldi fólks sem fer um landið hefur líka aukist. En almannaréttur má aldrei verða til þess að landið þurfi að liggja undir skemmdum.

Við þurfum að hafa það í huga.

Sú leið sem stjórnvöld fara núna varðandi náttúrupassa var valin vegna þess að auðveldast var að ná sátt um hana, því að þetta mál er mjög umdeilt. Þetta er sú leið sem flestir aðilar töluðu um og var talin líklegust til að ná fyrst árangri. Það eru fleiri leiðir og væntanlega kannski einhverjar aðrar betri en það tekur lengri tíma að ná sátt um slíkar leiðir eða að ná fram áhrifum þeirra. Við sjáum það bara sem hefur verið að gerast á síðustu dögum að við höfum ekki haft tíma til að bíða eftir því. Gullgrafaraæðið er byrjað. Ef við náum ekki tökum á þessum málum sem fyrst verður sífellt erfiðara að ná samkomulagi um að fara eina leið. Þess vegna held ég að vert sé að skoða náttúrupassaleiðina og sjá hvort hægt sé að fara hana. Hún tryggir óhindraðan aðgang, það þarf ekki túristaheldar girðingar úti um allt ef ekki er gjaldtaka víða. Þess vegna tryggir náttúrupassaleiðin almannaréttinn upp að vissu marki.