143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hvað er almannaréttur? Sú spurning hefur vaknað upp hjá fólki þegar landeigendur hafa gengið vígreifir fram og rukkað inn á svæði sín eins og við Geysi í Haukadal og Kerið í Grímsnesi. Þeir hafa gengið inn í það tómarúm sem hefur verið vegna þess að stjórnvöld hafa að mörgu leyti verið mjög stefnulaus um hvernig eigi að byggja upp fjölfarna ferðamannastaði. Það hefur verið skorið niður í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem var ætlað það hlutverk að byggja upp innviði ferðamannastaða vítt og breitt um landið og líka hafa verið lagðir minni fjármunir í þjóðgarða og önnur svæði sem var skorið niður til í síðustu fjárlögum.

Það er kannski ekki að undra að landeigendur nýti sér þetta tómarúm og og rukki ferðamennina beint. Við þessu þarf að bregðast. Þetta er óásættanlegt. Við viljum ekki sjá hjá náttúruperlum landsins ástand eins og í villta vestrinu.

Stjórnvöld verða að taka stjórn í þessum málum, byggja upp á þeim grunni sem var lagður, efla Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og fjármagna hann til viðbótar við það gistináttagjald sem gildir þegar í dag.

Í núgildandi lögum um náttúruvernd segir:

„Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.“

Verja verður með öllum ráðum þennan almannarétt og ég tel að bæði landsmenn og erlendir ferðamenn sjái ekki eftir einhverjum fjármunum, t.d. 500 kr., í komugjöld inn í landið til uppbyggingar íslenskri náttúru.

Núna er verið að spyrja um aðferðafræði í þessum málum, um hvernig eigi að innheimta og útdeila (Forseti hringir.) fjármunum. Við verðum fyrst og fremst að standa vörð um almannarétt í landinu.