143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Meiri háttar klúður. Það er eiginlega eina lýsingin sem mér dettur í hug um hvernig ástatt er núna með gjaldtöku af ferðamönnum í landinu og fráganginn í því máli. Ríkisstjórnin afsalaði sér 1,5 milljörðum með því að lækka virðisaukaskatt úr 14% niður í 7% á sama tíma og fjölgun ferðamanna er í sögulegu hámarki. Þegar virðisaukaskatturinn var lækkaður 2007 var gengið hátt og ferðaþjónustan átti í vök að verjast en nú er ástandið annað. Vinna við náttúrupassann gengur hægt, svo ekki sé meira sagt, og að minnsta kosti eitt ár tapast í gjaldtöku. Landeigendur hafa misst þolinmæðina og rukka ferðamenn á hinum ýmsu stöðum og því kemur upp versta staðan sem nokkur manneskja gat ímyndað sér.

Ekki verður séð að náttúrupassinn standist lög um almannarétt til að ferðast um landið. Það er alveg ljóst að ekki er hægt að gera greinarmun á Íslendingum og útlendingum þegar hans er krafist þannig að það virðist stefna í klúður líka.

Ég ætlaði að nefna eins og hv. þm. Róbert Marshall mjög merkilega grein eftir Einar Sæmundsen, fræðslufulltrúa í þjóðgarðinum á Þingvöllum, um gjaldtöku í þjóðgörðum á Nýja-Sjálandi. Þar greiða þeir sem gera út á náttúruna, þeir gera samning og greiða fyrir að koma þangað með rútur. Þeir sem ferðast á eigin vegum þurfa ekki að greiða og ef þetta væri hér ætti þetta jafnt við um innlenda menn og erlenda.

Ef menn segja að þeir sem koma á eigin vegum þurfi líka að greiða eitthvað má rukka bílastæðagjald eða eitthvað slíkt. Hvers vegna skyldi maður ekki borga fyrir að leggja við Gullfoss eins og maður borgar fyrir að leggja í Vonarstræti? (Forseti hringir.) Eins og alltaf þurfum við að finna upp hjólið (Forseti hringir.) og finna upp einhvern náttúrupassa sem enginn kann skil á og tapa þannig árstekjum, a.m.k. 1,5 milljörðum.