143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:42]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem málshefjandi sagði í upphafi, almannarétturinn er mikilvægur. Hann er afskaplega mikilvægur, hann hefur alltaf verið það og það hefur verið almenn sátt um það. En hvað þýðir hugtakið almannaréttur? Hann er ekki þannig að hér geti komið heilu fyrirtækin með þúsund manns á einn stað og sagt: Ég vil nýta almannaréttinn en ég borga ekki krónu. Það er ekki þannig. Almannarétturinn er ekki stjórnarskrárvarinn eins og eignarrétturinn þannig að það er heldur ekki alveg sambærilegt.

Við erum þó öll sammála um að það þarf að taka gjald til að byggja upp þessa staði. Staðan er einfaldlega sú og við erum allt of sein á okkur. Við áttum að vera löngu byrjuð á því. Við getum svo velt fyrir okkur hvaða leið sé best. Ég verð alveg að viðurkenna að ég kann ekki svarið, ekki enn.

Hugmyndin um náttúrupassa er ekki gallalaus. Aðrar leiðir eru það ekki heldur án þess að ég geti rakið það núna. Það eru margar leiðir til, það er hægt að skattleggja þetta, einhvers konar breytingar á gistináttagjaldinu eru hugsanlegar en mér sýnist fljótt á litið eftir að hafa kynnt mér þetta aðeins að sennilega sé náttúrupassaleiðin best. Um þetta þarf að ná samstöðu, ekki bara innan þingsins heldur við landeigendur og við alla hlutaðeigendur vegna þess að málið er brýnt, það er mikilvægt og ég er ekki í nokkrum vafa um að hægt sé að ná einhvers konar sátt um þetta þegar það er betur skoðað og menn hafa allir kynnt sér málið.