143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[17:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ágætu greinargerð fyrir málinu. Það er ákaflega mikilvægt markmið í sjálfu sér að einfalda og um leið styrkja eftirlit með ýmislegri starfsemi í landinu.

Ég vil nota tækifærið og inna hæstv. ráðherra eftir stöðu kræklingaeldisins í þessu sambandi, hvort það falli nokkuð undir þessa löggjöf. Ég minnist þess á síðasta kjörtímabili að þeir sem fyrir því standa hafi leitað eftir einföldun á regluumhverfi sínu og að erfiðlega hafi gengið að ná þeim óskum fram. Hefur ráðherrann hugmyndir um að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir í því sambandi?

Í öðru lagi vildi ég spyrja ráðherrann: Hvað gerist ef leyfisumsóknirnar eru ekki afgreiddar innan þessa sex mánaða frests? Er þetta bara einhver almenn viljayfirlýsing um að það eigi að afgreiða þær innan sex mánaða eða njóta umsækjendurnir einhverra ákveðinna réttinda? Er einhver sérstakur þrýstingur á stofnunina, annar en að það standi bara einhvers staðar að það eigi að afgreiða umsóknir á sex mánuðum, sem tryggir að það gangi raunverulega eftir?

Hvernig er með nýju kröfurnar, ef ég hef skilið ráðherrann rétt, sem lúta að hlutum eins og burðarþoli, norska staðlinum og öðru þess háttar, munu þær líka ná til þeirra sem þegar hafa hafið starfsemi? Eru þeir þá í stakk búnir til að mæta þessum nýju kröfum?

Að síðustu skildi ég ráðherrann þannig að í nálægum löndum greiddu menn fyrir aðstöðuna sem þeir fá í sjónum, þ.e. sjókvíaeldið, en ekki hér. Er það rétt skilið? Hvaða fjárhæðir erum við þá að tala um að menn greiði fyrir andstöðuna sem þeir fá?