143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og sérstaklega fyrir jákvæðar undirtektir við uppboðsleiðinni. Við jafnaðarmenn höfum löngum talað fyrir hugmyndum um auðlindasjóð, sem væri sameign landsmanna með svipuðum hætti og norski olíusjóðurinn er, og að almenningur hefði beinar tekjur af öllum auðlindum í gegnum slíkan auðlindasjóð. Þar mætti bjóða upp leyfi til sjókvíaeldis eins og hér væri þá um að ræða. Auðvitað rynnu þangað veiðigjöldin, gjöld sem tengdust nýtingu á orkuauðlindum okkar, hvort sem það er olíuvinnsla eða vatnsaflið, jarðhitinn, útboð á fjarskiptarásum og fjölmargt annað hefur verið nefnt í þessu sambandi.

Ég vildi í þessu síðara andsvari biðja þingmanninn um að skýra betur það sem hún á við þegar hún fjallar um markaða tekjustofna. Hvaða annmarkar eru á því að vera með markaða tekjustofna eins og hér er gert ráð fyrir? Og var það rétt skilið að þetta væri í ósamræmi við þá stefnu sem forusta fjárlaganefndarinnar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, hefur markað? Hefur hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson — af því að þetta er stjórnarfrumvarp sem hlýtur að hafa verið samþykkt til framlagningar í ríkisstjórn — lýst einhverri afstöðu til þeirra álitaefna sem kunna að vera uppi um markaða tekjustofna?