143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[17:58]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins er þetta ekki alveg í takt við það sem fjármálaráðuneytið vill viðhafa, þ.e. um markaðar tekjur. Um það hefur verið deilt hvaða tilgangi þær þjóna og hvort þær séu af hinu góða. Sumir telja það ekki gegnsætt að hafa markaðar tekjur meðan aðrir telja að þannig sé því fylgt eftir. Við þekkjum öll markaðar tekjur sem hafa kannski ekki allar runnið til þeirra verkefna sem þær eiga að gera.

Svo er auðvitað alltaf spurning hvort afnema eigi allar markaðar tekjur eða hvort sumir gjaldstofnar geti verið með þeim hætti. Þetta er alla vega ekki í takt við frumvarpið um opinber fjármál sem hæstv. fjármálaráðherra leggur væntanlega fram fljótlega og þetta er alls ekki í samræmi við fyrirliggjandi frumvarp sem meiri hlutinn í fjárlaganefnd hefur lagt fram. Ástæða er til að velta þessu fyrir sér og eins og ég sagði áðan held ég að það sé í fleiri frumvörpum sem hér eru fyrirliggjandi þar sem markaðar tekjur koma fram til tiltekinna verkefna eða stofnana. Stjórnarmeirihlutinn hlýtur að þurfa að velta aðeins fyrir sér á hvaða línu hann er og hvernig hann ætli að gera þetta.

Fjármálaráðuneytið gerir líka athugasemdir við að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að árgjald til að fjármagna ríkisstarfsemi verði greitt í erlendri mynt og bendir á að það sé algjört einsdæmi og telur það óheppilegt fyrirkomulag og veki upp álitamál um aðra skatta og skyldur sem þessi fyrirtæki greiða eða hvernig slík áform snúi að fyrirtækjum í öðrum útflutningsgreinum. Hér er því augljóslega verið að ganga svolítið gegn því sem fjármálaráðuneytið leggur til.