143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[18:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að koma hér í ræðu þar sem ég fæ ekki tækifæri til þess að fjalla um málið í nefnd, ég sit sjálfur ekki í hv. atvinnuveganefnd, en hér er um að ræða mál sem mikið hefur komið inn á borð til okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis þar sem við höfum verið að ræða um laxeldið á Vestfjörðum, m.a. á sunnanverðum Vestfjörðum, og allar þær væntingar og tækifæri sem verið hafa sjáanleg þar í uppbyggingu á laxeldi og einnig er margra ára reynsla af því í Ísafjarðardjúpi.

Meginefni frumvarpsins lýtur að einföldun á umsóknarferli starfs- og rekstrarleyfa samkvæmt greinargerð með frumvarpinu og er talað um að stuðla þar að auknu öryggi í fiskeldi og draga úr umhverfisáhrifum þess, aukinni skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með fiskeldi, gjaldtöku og tryggingarskyldu, stofnun Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, dagsektum, úrbótum á kostnaði leyfishafa og starfsemi sem er án rekstrarleyfis.

Eins og ég kom að í andsvari við hæstv. ráðherra tel ég að þetta sé gríðarlega mikilvægt frumvarp og þau markmið sem sett eru fyrir frumvarpið mjög góð. Ég ætla að vona, þó að það komi kannski ekki fram hér, að sá hópur sem skilar nú frumvarpi hafi gert það í mikilli sátt, en þar er m.a. fulltrúi tilnefndur af Landssambandi fiskeldisstöðva. En auðvitað koma fjöldamargar spurningar fram þegar ég les þetta, eftir að hafa heyrt í mönnum á sínum tíma þegar menn voru að reyna að koma þessu í gang og heyrt lýsingar þeirra á öllum þeim vandkvæðum sem voru við það að fá þessi leyfi, t.d. varðandi óskýr mörk, skort á skipulagi á strand- og hafsvæðum, hvernig farið er með skipulagsvald á þessum svæðum, hvernig nýtingin má vera á þessum svæðum, hver réttur landeigenda er sem eiga land að sjó o.s.frv.

Auðvitað hefur hluti af þessu verið tekinn inn í reglugerðir áður og reynt að sinna þessum verkefnum, en hér er verið að reyna að setja allt á einn stað. Verið er að færa þessi mál til Matvælastofnunar og mér finnst sérlega ánægjulegt að sjá í frumvarpinu að þar er reynt að gera þetta þannig að Matvælastofnun sæki síðan aðstoð til annarra aðila. Það kemur fram í 3. gr. frumvarpsins að Matvælastofnun skuli taka á móti umsóknum og síðan verði hún að leita til margra aðila til þess að fá svör við ýmsum þáttum. Má þar nefna Fiskistofu, Veiðimálastofnun, Hafrannsóknastofnun, og einnig til viðkomandi sveitarstjórna til þess að fá skýr svör við ákveðnum þáttum til þess að Matvælastofnun geti síðan gefið leyfi. Þar er m.a. fjallað um hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerðum um heilbrigðiskröfur o.s.frv. og er ítarlega farið yfir þær kröfur hér.

Það er líka athyglisvert að sjá að Umhverfisstofnun á að fara með ákveðna þætti, en reiknað er með því að Umhverfisstofnun og Matvælastofnun geri samning þar sem Matvælastofnun fer með það hlutverk að hluta þannig að þetta verði allt á einni hendi. Það er mjög til fyrirmyndar og ég ætla að vona að það virki.

Það sem vekur áhyggjur á sama tíma, þó að það sé í sjálfu sér ekki aðalatriði, er að sum verkefni sem núna eru úti á landi, eins og hjá Fiskistofu á Ísafirði, færast til. Fiskistofa missir þá þau verkefni. Af því að ég vitnaði til funda með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og sveitarstjórnarmönnum á þessu svæði á Vestfjörðum, og hef raunar heyrt þá umræðu víðar, þá skiptir mjög miklu máli þegar svona veigamiklar breytingar eru gerðar að menn tryggi að störfin haldist á þeim svæðum þar sem veita þarf þessa þjónustu og þarf að hafa hana sem næst notendunum. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að ekki er hægt að dreifa þessum verkefnum út um allt land, en ég gerði hér að tillögu minni í andsvari að þar sem uppbyggingin væri hröðust í augnablikinu, þ.e. á Vestfjörðum, yrði þessi þjónusta þar. Fluttar hafa verið þingsályktunartillögur um það í þinginu, m.a. af fyrrverandi hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að Vestfirðir yrðu skilgreint svæði þar sem menn væru með rannsóknir og þjónustu í sambandi við sjávarútveg. Alla vega gætum við náð þeim áfanga að umsjón og þjónusta við fiskeldi yrði höfð á þessu svæði. Auðvitað verðum við þá líka að reikna með því að þau fyrirtæki sem sækja þarna um leyfi verði þá með lögheimili sín í þessum sveitarfélögum til þess að tekjurnar af starfseminni fari sem mest inn á svæðið.

Það hefði verið gaman að heyra meira frá ráðherra varðandi burðarþolsmat og sjóeldissvæði. Þegar við höfum verið að fjalla um þessi mál við fólk frá viðkomandi fyrirtækjum hafa verið skiptar skoðanir um hversu stórt land menn þurfi að helga sér. Ef menn eru með svona gríðarlega miklar fjárfestingar verða menn að hafa tryggingu fyrir því að ekki komi aðrar stöðvar of nærri út af sjúkdómahættu. Sumir hafa talað um að þeir þyrftu nánast að hafa heilu firðina vegna þess að þá gætu þeir líka fært sig á milli staða þannig að umhverfisáhrifin yrðu minni og hindrað líka sýkingar. Það kemur ekki fram í frumvarpinu hver mörkin eru nákvæmlega, það er að hluta til tilgreint í reglugerðum, talað um 5 km þarna á milli, en það hlýtur að skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að útfærslum og framkvæmd.

Það er athyglisvert líka í 5. gr. frumvarpsins þar sem gerðar eru kröfur til þeirra sem fá leyfi. Þar er til dæmis talað um eignarhald á fiskeldisstöðvum, að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði, gæðakerfi stöðvarinnar og að eldisbúnaður standist kröfur o.s.frv. Það er líka til fyrirmyndar að ekki geti hver sem er rokið af stað með eitthvert fyrirtæki sem fari síðan á hausinn og skilji eftir sig mannvirki. Þarna er líka séð til þess að menn verði að borga tryggingar þannig að ef þeir lenda í einhverjum áföllum og öðru slíku séu þeir tryggðir fyrir því þannig að það falli ekki á viðkomandi sveitarfélag eða að ríkið verði að hreinsa upp eftir slíka starfsemi.

Það eru álitamál í þessu eins og kom fram: Hver staða skipulagsvaldsins gagnvart sveitarfélögunum? Hvernig er með skipulag á þessum hafsvæðum og almennt í landinu og hafa menn verið að gera skipulag á strandsvæðum, eins og Vestfirðingar þegar þeir hafa verið að vinna að slíku? Hvernig á að halda utan um þessi mál í heild? Það væri fróðlegt að fá meiri umræðu um það. Einnig kemur hér fram, sem er forvitnilegt, að menn virðast ætla að stuðla að töluvert mikilli nýtingu, því að það er ákvæði um það að ef rekstrarleyfi er gefið út fyrir minna en 40% nýtingu á ákveðnu hafsvæði sé það tímabundið. Þar er talað um fjögur ár, þá þurfi að endurskoða það, þannig að greinilega er verið að ýta undir það að menn nýti þessi svæði vel. En þá er spurningin: Hvað telst vera hæfileg nýting til þess að sjórinn nái að hreinsa sig? Það kemur ágætlega fram í frumvarpinu að það er háð straumum og öðru slíku.

Hér er búið að ræða töluvert um eftirlitsgjaldið og talað er um að faggiltir eftirlitsaðilar geti sinnt eftirlitinu fyrir Matvælastofnun, þ.e. talað er um Matvælastofnun eða faggilta eftirlitsaðila. Nú væri gaman að vita hvort þeir eru til og þá líka hvernig gjaldtöku yrði háttað hvað það varðar, en ég sé fyrir mér að þarna geti verið einkafyrirtæki, eins og er svo sem algengt í þessum iðnaði, en auðvitað þarf að reyna að tryggja að kostnaði verði haldið sem lægstum hvað þetta varðar. Og það er raunar skýrt kveðið á um að eftirlitsgjaldið skuli miðast við launakostnað, annan kostnað vegna starfsfólks o.s.frv., greiningu á rannsóknarstofu og sýnatöku, og að Umhverfisstofnun og Matvælastofnun geri með sér samning þar sem Matvælastofnun fer að hluta til hlutverk með Umhverfisstofnunar og sinnir því sérstaklega, það er skilgreint í lögum til þess að tryggja að þetta sé allt á einni hendi.

Ég vakti athygli á því í andsvari sem mér fannst vera svolítið sérstakt, að umsóknir um rekstrarleyfi skuli ekki teknar til afgreiðslu fyrr en þjónustugjald hefur verið greitt. Það er að mörgu leyti skiljanlegt ákvæði en hversu íþyngjandi það er átta ég mig ekki alveg á, þ.e. hvort nægjanlegt er að gefa tryggingu eða hvernig gengið er frá þessu. Í næstu grein á eftir er það ákvæði sem ég nefndi áðan um trygginguna, þ.e. að umsækjandi verði að kaupa ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi fyrir hugsanlegu tjóni sem af starfseminni getur hlotist. Það verði að liggja fyrir fyrir útgáfu rekstrarleyfis.

Síðan er ákvæði líka um þennan Umhverfissjóð. Ég sagði það nú í bæði gríni og alvöru að það er dálítið sérstakt að fá þarna inn í íslensk lög viðmið og gjaldtöku sem er með erlendum gjaldeyri, þ.e. sem er með SDR, sem er blanda af gjaldeyri, og gjaldtakan tryggð með þeim hætti. Það er að því leyti merkilegt, eins og ráðherra sagði, að ef kostnaður, greiðslur og tekjur og allt er í erlendum gjaldmiðli hjá þessum fyrirtækjum þá sé það nauðsynlegt, en þannig er það hjá stórum hluta af íslensku atvinnulífi, ég tala nú ekki um útflutningsatvinnuvegunum, þá er þetta ein skýrasta viðurkenningin á því að það er erfitt að setja inn í lög verð í íslenskum krónum. Það er alltaf töluverð vinna að færa upp gjaldskrár einfaldlega vegna þess að krónan er ekki stabíll gjaldmiðill. Ég ætla ekki að dvelja mikið lengur við það en mér finnst þetta vera mjög áhugavert og forvitnilegt í samhengi við þá umræðu sem á sér stað í dag um gjaldeyrishöft og stöðu íslensku krónunnar og allt sem því er tengt.

Það má skilja það þannig að ef einhver sækir um og er kominn í umsóknarferli sé Skipulagsstofnun ekki skylt að taka annan aðila inn fyrr en búið er að afgreiða þann fyrri. Það hefði verið fróðlegt að heyra hvernig menn hafa hugsað sér þetta. Fyrstur kemur, fyrstur fær, þannig má skilja þetta að sumu leyti. Á sama tíma höfum við rætt hér fyrr í umræðunni að uppboð með einhverjum hætti gæti verið æskilegt form ef verið er að úthluta ákveðnum svæðum, að menn eigi þá aðgang að því með einhverjum formlegum umsóknum og þá jafnvel uppboðum, ekki endilega fyrir hæstbjóðanda. Það er líka hægt að gera það með ýmsum hætti, eins og við höfum rætt í tengslum við sjávarútveginn, að það sé tilboðsmarkaður sem stendur yfir í einhvern ákveðinn tíma á netinu og síðan er það afgreitt eftir það. Þetta er í sjálfu sér ekki alveg skýrt hér.

Í 16. gr. í frumvarpinu, III. kafla, stendur, með leyfi forseta:

„Skipulagsstofnun er ekki skylt að taka til efnislegrar meðferðar tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu í þeim tilvikum sem hin tilkynnta framkvæmd er fyrirhuguð á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar málsmeðferðar á grundvelli þessarar greinar og þar sem fullnægjandi gögn liggja fyrir að mati Skipulagsstofnunar, eða fyrir liggur ákvörðun samkvæmt þessari grein“ o.s.frv.

Þarna er því greinilega verið að setja varnagla um að menn þurfi ekki að vinna verkið fyrir mörg fyrirtæki á sama tíma og að sá sem fyrstur sækir um fái verkefnið.

Áðan var rætt um gjaldtökuna. Öll sú gjaldtaka sem tilgreind er hér er gjaldtakan við að sækja um, kostnaðurinn við umsóknina og síðan kostnaðurinn við þennan sérstaka sjóð. En mér finnst mikilvægt að fylgja eftir þeirri athugasemd sem kom fram fyrr í umræðunni frá hv. þm. Helga Hjörvar, (Gripið fram í.) þar sem vakin er athygli á auðlindasjóðnum, hugmyndunum um að fá leyfi til að nýta íslenska náttúru, að rukkað sé eitthvert afnotagjald sem renni í sameiginlegan sjóð landsmanna. Ég held að það sé eitthvað til umhugsunar, það getur verið að fyrir hendi séu einhverjir byggðastyrkir og hjálp við að koma slíkri atvinnustarfsemi af stað í byrjun, en til lengri tíma eigum við að hugsa um þetta sem sameiginleg verðmæti. Það er orðið mjög áríðandi, bæði þarna og í atvinnulífinu, í sambandi við ferðaþjónustuna og gjaldtökuna þar, eins og rætt var fyrr í dag. Við höfum rætt um auðlindagjald í sjávarútvegi, í raforkunni og víðar, að þjóðin fái einhvers konar afnotagjald fyrir samneysluna af þessum auðlindum sem rennur síðan gjarnan til sveitarfélaga eða til viðkomandi byggðarlaga. Um er að ræða heilu hafsvæðin og afnotarétt af þeim til langs tíma. Það er ekki nægjanlegt í öllum tilfellum að segja bara: Ja, fyrirtækið kemur með starfsemina, menn borga útsvar á staðnum o.s.frv., það þarf meira til. Ég held að það sé nokkuð sem verði rætt í nefndinni og að menn muni skoða það. Það er áríðandi að taka heildstætt á þessum málum vegna þess að við sjáum að sífellt fleiri ásælast aðgang að íslenskri náttúru og þá er mikilvægt að við fylgjum eftir því ákvæði eða þeim hugmyndum sem við höfum um að (Forseti hringir.) landið sé í eigu þjóðarinnar og þar með einnig sjórinn í kringum það.