143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[18:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eins og hv. þingmaður er að reyna að lesa mig í gegnum þetta frumvarp þar sem ég hef ekki aðkomu að því í nefnd. Eitt af því sem maður telur sér skylt að gera er að reyna að setja sig inn í sem flest mál, því að um ýmislegt er maður spurður sem ætlast er til að maður viti og hafi einhverja þekkingu á. Það er því af hinu góða að sitja undir umræðum og ræða málin.

Ég vil byrja á því að taka undir það sem hann sagði um auðlindasjóðinn. Ég held að við eigum sameiginlegt að vilja búa til slíkan sjóð fyrir þjóðina okkar vegna nýtingar á náttúrunni, hvar svo sem og hver hún er, hvort sem það er þetta eða eitthvað annað.

Hv. þingmaður kom upp áðan og svo aftur núna og ræddi meðal annars um tilurð Fiskistofu og það að hún mundi kannski leggjast af, eitthvað slíkt, fyrir vestan þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hefði talað um að finna henni önnur verkefni. Mig langar að velta því upp með þingmanninum hvaða verkefni hann sæi til dæmis fyrir sér að Fiskistofa gæti sinnt í stað þeirra sem hún sinnir núna. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þeir peningar sem um ræðir, þetta eru svo sem ekki háar fjárhæðir eða ég veit ekki hvort þetta er það eina sem um ræðir því að talað um 1,4 millj. kr. tekjur hjá Fiskistofu vegna þessa eftirlitsgjalds. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða áhrif það hefur á starfsemina fyrir vestan, hvort þetta er eingöngu niðurskurður þar eða hvort það er eitthvað annað og hvaða öðrum verkefni þeir sinna þar. Hv. þingmaður getur kannski frætt mig aðeins um það.