143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[18:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert þetta með nýja gjaldmiðilinn. Í raun er gagnrýnin kannski ekki sett á það frá fjármálaráðuneytinu í sinni umsögn. En það er ástæða til að vekja athygli á þessu líka vegna þess að við erum með býsna margar útgáfur af gjaldmiðlum. Menn eru með verðtryggða krónu, menn eru með óverðtryggða krónu, menn eru með erlend viðmið, við sjáum ferðaþjónustuna nota evrur og umreikna í íslenskar krónur nánast eftir hentugleikum. Ég hef grun um að gjaldtakan á Geysi hafi verið ákveðin sem fjórar evrur og þá sett sem 600 kr. og spurning hvernig það verður til lengri tíma.

Við erum að taka okkur þessi viðmið og miðum oft við notendur eða kaupendur að þjónustunni og svo útflutning á vörum.

Það sem er athyglisvert og við höfum svo sem getað rætt af því að hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir er í fjárlaganefnd, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að kaflinn hér í umsögn fjármálaráðuneytisins er mjög athyglisverður. Ég ætla að leyfa mér að lesa hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Frumvarpið gerir ráð fyrir að framangreind gjöld, sem teljast vera lögþvingaðar ríkistekjur, renni beint til reksturs annars vegar Matvælastofnunar og hins vegar til nýs Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur það ekki heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þessum hætti til reksturs ríkisaðila. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna að vera tekin í fjárlögum hverju sinni.“

Fyrir þessu eru heilmikil rök og ég geri mér alveg grein fyrir því að menn geta haft miklar tekjur tímabundið og þá er verið að reyna að hindra að stofnanir þenjist út tímabundið og síðan vill það oft bregðast að menn dragi saman aftur.

Samtímis er ég ekki svo viss um að hægt sé að gera það sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur flutt frumvarp um, (Forseti hringir.) að leggja af markaða tekjustofna. Ég held að málið sé ekki svona einfalt, ég held að menn þurfi að tengja þetta að einhverju leyti (Forseti hringir.) þó að ég treysti mér ekki til að segja að þetta sé endilega réttasta leiðin.