143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jafn ítarleg og góð og umræðan um fyrra dagskrármálið var verð ég að segja að mér þótti þessi framsöguræða hæstv. ráðherra býsna stutt og efnisrýr vegna þess að um þetta efni skortir okkur í þinginu umtalsverðar upplýsingar. Ég veit ekki betur en að skipan þessarar nefndar hafi orðið niðurstaðan við þinglega umfjöllun, niðurstaðan hafi orðið að skipa þessa nefnd með fulltrúum allra flokka — til hvers? Til þess að ráðherrann hefði samráð við þessa nefnd um þá vinnu sem fara ætti í við veiðigjöldin. Ég veit ekki betur en að umtalsverð vinna hafi farið fram á vegum hæstv. ráðherra um veiðigjöldin síðan þetta var.

Eftir því sem ég best veit hefur þessi ráðgefandi hópur fulltrúa stjórnmálaflokkanna aldrei komið saman. Ég verð að segja að ég undrast mjög slíkt verklag, að þegar samkomulag hefur orðið um það á vettvangi þingsins að skipa nefnd sem ráðherrann skuli tryggja samráð við þannig að sjónarmið hinna pólitísku flokka sem hér eru væru með í vinnunni fari fram vinna mánuðum og missirum saman og þessi nefnd virt að vettugi og það samkomulag sem tókst í þinginu um skipan hennar. Ég bið hæstv. ráðherra að gera skýra grein fyrir því hvar vinnan í veiðigjöldunum stendur, hvort það sé rétt að nefndin hafi aldrei verið kölluð saman og hvernig á því standi að ekki sé haft (Forseti hringir.) það samráð sem samkomulag varð um á vettvangi þingsins.