143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[18:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ræðan var efnisrýr þar sem ég las hvert einasta orð sem fylgdi þessu frumvarpi. Það er hins vegar um þetta að segja að fimm manna veiðigjaldsnefndin sem er í lögunum hefur aldrei verið kölluð saman. Er ekki við þann sem hér stendur að sakast vegna þess að hún hefur einhverra hluta vegna aldrei verið kölluð saman en er búin að vera til býsna lengi. Má þá horfa til fleiri sjávarútvegsráðherra.

Þegar formenn stjórnarflokkanna komu aftur á móti saman í desemberlok að semja um þinglok síðustu daga þings fyrir jól varð að samkomulagi að þessi hópur yrði nýttur í samráð um veiðigjöld og þess vegna var það mitt fyrsta verk í janúar þegar ég kom til starfa að reyna að koma þessum hópi á laggirnar. Þá kom í ljós í samstarfi við Alþingi og starfsmenn Alþingis að það væri ekki hægt því að þeir sem hefðu verið kosnir í nefndina á síðasta kjörtímabili, tilgreindir með nöfnum, væru í nefndinni en ekki fulltrúar þeirra þingflokka sem hér væru. Þess vegna þyrfti lagabreytingu.

Ástæðan fyrir því að málið er ekki komið fyrr inn er meðal annars sú að það tekur alltaf ákveðinn tíma að koma málum hér áfram. Svo má kannski benda á að síðustu þrjár, fjórar vikur hefur verið fjallað um annað mál í þinginu en þetta. Þetta hefur verið klárt á dagskrá. Að sjálfsögðu verður þessi nefnd notuð. Þess vegna er frumvarpið komið hingað inn og ég vonast til þess að það fái skjóta afgreiðslu því að tilgangurinn er einmitt að hafa samráð.

Vegna þess að ekki hafði verið haft samráð við þá tilgreindu einstaklinga sem ekki sitja lengur á þinginu sem fulltrúar þingflokka sem jafnvel eru ekki til hafði ég það frumkvæði að hafa samráð við atvinnuveganefnd þar sem sitja fulltrúar úr öllum þingflokkum til að það samráð gæti átt sér stað. Ég tel að þessi vettvangur sé mjög fínn og vænti þess að frumvarpið fái skjóta afgreiðslu í þinginu til að koma þessum vettvangi á.