143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[18:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði í stuttu andsvari, til að spara tíma og fá þá svar frá hæstv. ráðherra strax, kannski ekki að spyrja beint út í það sem lagt er til hér, sem er sjálfsögð breyting. Talað var um að fjöldi fulltrúa í samráðsnefnd réðist af fjölda þingflokka á Alþingi en takmarkaðist ekki við fimm manns eins og nú er, alla vega eins og við kláruðum þetta síðast. Gott ef þetta var ekki tillaga í atvinnuveganefnd eða í fjögurra manna hópnum sem var kallaður sérfræðingahópur, fulltrúar flokkanna. Ég geri mikinn greinarmun á þeim fulltrúum sem Alþingi kýs annars vegar, fulltrúum þingflokka, því sem heitir samráðsnefnd, sem vinnur með hinni eiginlegu þriggja manna veiðigjaldsnefnd sem er skipuð samkvæmt lögum og er að störfum.

Hér er verið að opna lögin um veiðigjöld og mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um störf veiðigjaldsnefndar, hvernig það mál stendur, hvað nefndin hefur gert og hverju nefndin hefur skilað af sér, meðal annars í því að reikna út staðla fyrir hverja fisktegund fyrir sig. Hér eru lögin opnuð hvað það varðar, um veiðigjöld, og ég þykist vita, og það hefur verið boðað í þingmálaskrá, að fram komi frumvarp um breytingu á lögum um veiðigjöld hvað varðar upphæðirnar. Ég spyr annars vegar um störf veiðigjaldsnefndar, hvað hefur gerst þar, hvernig gengur sú vinna, og hins vegar um væntanlegt boðað frumvarp um breytingu á veiðigjaldalögunum, þ.e. hvað varðar upphæðir.