143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[18:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör um störf veiðigjaldsnefndar. Ég hef óskað eftir því í atvinnuveganefnd að veiðigjaldsnefndin sjálf gefi okkur upplýsingar um störf sín, hve langt sú vinna sé komin. Í ljós kemur að í atvinnuveganefnd er frumvarp sem tekur á hinum frjálsu rækjuveiðum. Inn í þá vinnu hefur blandast annað mál frá hendi forustu nefndarinnar þar sem rætt er um breytingu á veiðigjöldum á nokkrum tegundum í kvótakerfinu sem ekki er talið að af sé nægilegur arður til að þær geti borið hið sérstaka veiðigjald.

Ég ætla því í síðara andsvari mínu að spyrja hæstv. ráðherra, úr því að hér er verið að koma með frumvarp til laga um breytingu á veiðigjöldum, af hverju það komi þá ekki um leið frá hæstv. ráðherra sem frumvarp, eins og lög gera ráð fyrir, eftir tillögu frá veiðigjaldsnefnd, tillögur um breytingar á veiðigjöldum á einstökum tegundum sem hefur verið rætt um, ég nefni rækju og kolmunna sem dæmi.