143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[18:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að endurtaka það sem ég sagði áðan. Það kom mér og ráðuneytinu nokkuð á óvart að ekki væri hægt að nýta þann grunn sem fyrir var. Ég held að það hafi verið hæstv. forseti Alþingis sem stakk upp á þessu á fundi formanna stjórnarflokkanna, ég var reyndar ekki viðstaddur og ætla svo sem ekki að rengja hv. formann Samfylkingarinnar um það. En það kom mér nokkuð á óvart og voru ákveðin samskipti á milli Alþingis og ráðuneytisins um hvernig þessu væri best fyrir komið.

Þetta er niðurstaðan. Ég hefði kosið að þessu væri komið á framfæri fyrr og væri komið hingað inn og væri frágengið. Ef ég man rétt var það hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem fór í óundirbúna fyrirspurn við hæstv. forsætisráðherra þar sem mig minnir að þetta mál hafi borið á góma og þessar upplýsingar hafi komið fram, í það minnsta reyndi ég að koma þeim á framfæri. Ég hefði gjarnan viljað fá þá óundirbúnu fyrirspurn sjálfur því að þá hefði ég getað svarað því mjög skilmerkilega en taldi að allir væru upplýstir um að svona væri þessu fyrir komið, og ég tel það vera mjög óheppilegt að menn hafi ekki áttað sig á því.

Nú er málið þó komið hingað inn. Ég hefði gjarnan kosið að það hefði verið komið fyrr, en það er ekki bara við þann sem hér stendur að sakast að málið hafi ekki komið á dagskrá fyrr en í dag.