143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[18:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vísra manna háttur þegar formið er farið að há efninu að finna leiðir til að koma í veg fyrir þá niðurstöðu og þá víkja forminu til hliðar. Ég tek gildar allar þær athugasemdir sem hæstv. ráðherra kemur fram með um að þetta hafi reynst torsóttari leið en menn töldu í upphafi.

Eftir stendur þá það að við þurfum með einhverjum hætti að haga því þannig að við getum átt þverpólitískt samstarf um málið og helst sem allra, allra fyrst, þannig að það sé raunverulegur möguleiki að koma fram með þverpólitískri aðkomu gjaldi á upphafsúthlutanir í makríl. Tíminn er ekkert allt of langur, það lifir ekkert allt of langt þessa þings. Þess vegna vil ég stinga upp á því við hæstv. ráðherra og spyrja hann álits, óháð þeirri nefnd sem við erum núna að setja á fór: Eru ekki efni til þess að við sammælumst um það hér og nú að setja þingmenn til verka nú þegar og kanna möguleikann á því að leggja á gjald á makrílinn sérstaklega? Þannig að við nýtum tímann á næstu dögum og eygjum þá möguleikann á því að geta beðið nefndina um að flytja slíkt frumvarp í þverpólitískri sátt, jafnvel þó að liðið sé fram yfir 31. mars, því að ég óttast að við séum að fara að brenna inni. Ég ætla ráðherranum ekki það að hann sé að skáka í því skjólinu að formið sé að valda okkur vandræðum í að koma málum áfram.

Ég spyr hann því: Finnst honum ekki tilraunarinnar virði að reyna að finna einhvern farveg í kringum þetta, að við komum á sérstöku ad hoc-samráði þingmanna og þingflokka núna, þverpólitísku, til þess að tryggja að möguleikinn — af því að hann fer frá okkur, möguleikinn á því að leggja á gjöld í upphafsúthlutun í makríl — verði nýttur og við sameinumst um að reyna að nýta hann núna þannig að fyrir kvótasetningu á makríl fyrir næsta fiskveiðiár verði gjaldtökuheimild (Forseti hringir.) skýrt sett í lög?