143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[19:20]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að svo hafi verið. Ég hef reyndar gengið út frá því að breytingin á veiðigjöldum sem gerð var síðasta sumar, þar sem sérstaka veiðigjaldið á botnfiski var lækkað verulega og hækkað mjög á uppsjávarfiski, hafi verið unnin eftir fyrstu upplýsingum eða gögnum sem veiðigjaldsnefnd lagði til. Það er alveg klárt í gildandi lögum að veiðigjaldsnefndin er sérfræðingahópurinn sem fer í gegnum alla þessa þætti, rekstrartölur, tekur tillit til kostnaðar og ástands á mörkuðum og alls þess, hún leggur til upplýsingar og gögn. Vissulega var mikill ágreiningur síðasta sumar og er enn mikill ágreiningur innan sjávarútvegsgreinarinnar um þær breytingar sem þá voru gerðar. Það hefur heldur betur komið á daginn að ekki voru neinar forsendur fyrir þeirri miklu hækkun sem varð á uppsjávarfiski miðað við ástandið á mörkuðum síðar.

Það sýnir okkur líka það sem gerst hefur á mörkuðum varðandi afurðir af uppsjávarfiski og gengisskráningu íslensku krónunnar að þetta tekur miklum breytingum og er fljótt að breytast. Það staðfestir enn einu sinni það sem ég hef sagt, en get ekki fjallað um meira hér í andsvari, að leggja skuli veiðigjöld á eftir samtímaupplýsingum, eftir lönduðum afla. Það á að gerast í gegnum skil til ríkisskattstjóra sem kæmi svo til greiðslu tveimur, þremur mánuðum seinna. Þá tekur það strax breytingum hvort hátt verð fæst fyrir aflann eða lágt og þá verður það strax virkt en svo er ekki í þeim gömlu gögnum (Forseti hringir.) sem við höfum núna.