143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[19:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá langar mig að spyrja í framhaldinu: Hverjir voru helstu annmarkarnir á þeirri leið sem hv. þingmaður nefnir hér og af hverju fékk hann ekki fleiri til að stökkva á vagninn með sér? Hvað var það sem þingmenn og ráðherrar sáu óheppilegt við þá útfærslu. Við erum jú að tala um að sérstaka veiðigjaldið er lagt á ári seinna, byggt á afkomu fyrra árs, og það hefur verið gagnrýnt. Hv. þingmaður getur væntanlega sagt mér hvað þessu fyrirkomulagi var helst fundið til foráttu.

Ég held að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það sem gert var hér í sumar var ekki gott. Ég held að við séum sammála um að greiða eigi veiðigjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind okkar. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni var látið í sumar eins og ekki væri hægt að breyta neinu af því sem þá var rætt heldur þyrfti að fella gjaldið niður.

Hv. þingmaður nefndi kolmunnann og veiðina í Barentshafi. Það hefur alltaf komið fram í máli fyrrverandi ríkisstjórnar að gjöldin voru lögð á á síðasta kjörtímabili og þau gæti þurft að endurskoða. Ég spyr hvort við hefðum ekki frekar viljað sjá það gert en þær breytingar sem gerðar voru í sumar þegar mikið tekjutap varð. (Forseti hringir.) Ég spyr hvort hv. þingmaður hefði ekki lagt til aðra leið í þeim efnum.