143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[19:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að veiðigjöld voru lögð á miðað við meðaltal eins og gert er í dag og hvers vegna urðu þær tillögur sem ég hreyfði og kynnti ekki ofan á? Ég held að það hafi nú fyrst og fremst verið, ég ætla ekki að ganga lengra en það, vegna þess að þær voru of seint fram komnar, menn kveiktu ekki alveg á perunni. Ég held hins vegar að það hafi komið í ljós við framkvæmdina að betra hefði verið að byggja þetta á nútímagögnum þannig að miðað sé við afkomu af veiðum og vinnslu í hvert og eitt skipti og veiðigjald sé greitt af því.

Tökum kolmunnann sem dæmi, hann er ekki nógu arðbær og lítið fæst út úr honum og því greiðist einfaldlega minna. En aukist verðmætið með hækkun á mörkuðum eða með stórlækkuðu olíuverði, sem því miður er kannski ekki að fara að gerast, verður arðurinn meiri og þá er greitt meira af því. Nútímaupplýsingar eru þær bestu og það versta við það sem við erum að gera núna — það er bæði ástæða fyrir deilum og eins ástæða fyrir breytingum sem sagt er að verði að gera — er það að þetta er byggt á gömlum meðaltalsgögnum. Eins og stundum hefur verið sagt: Meðallaun verkamanns og meðallaun þess ríkisforstjóra sem hæstu launin hefur geta verið ágæt sem meðallaun en það bætir ekki stöðu verkamannsins.

Það að taka þetta út frá þessum meðaltölum og út frá þessum gömlu gögnum, sem gerist ekki fyrr en eftir skil til Hagstofu, þegar gögnin eru orðin tveggja ára gömul, er það versta við þessa útfærslu að mínu mati. (Forseti hringir.) Þess vegna fagna ég því og hef reyndar alltaf vitað og sagt að það lægi í augum uppi að það tæki töluvert langan tíma fínslípa þetta (Forseti hringir.) þannig að það gangi smurt.