143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

beiðnir um sérstakar umræður.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr sérstaklega út í og gerir að umtalsefni sérstakar umræður og tíðni þeirra. Ég er svo sem sammála hv. þingmanni um að það sé æskilegt að menn ræði sem flest mál og sem mest, en hvað varðar sérstakar umræður er nú ekki hægt að segja annað en að flokki hv. þingmanns hafi verið ágætlega sinnt á þessu kjörtímabili því að Björt framtíð hefur beðið um tólf sérstakar umræður við ráðherra og fengið átta en þrjár hafa verið kallaðar aftur. Hv. þingmaður nefnir beiðni um sérstakar umræður við mig. Ég hef boðist til að ræða við m.a. hv. þingmann um mál sem hann hefur beðið um sérstaka umræðu um án þess að hann hafi séð sér fært að ræða málið akkúrat á þeim tíma. Ég hef hins vegar í þeim tilvikum ekki getað rætt málið á þeim tíma sem hv. þingmaður vildi ræða það. Hins vegar vantar ekkert upp á vilja minn til að ræða mál almennt við hv. þingmann og er raunar ekkert óeðlilegt í samanburði við fyrri forsætisráðherra að forsætisráðherra taki þátt í færri sérstökum umræðum en aðrir ráðherrar. Það í eðli sínu hlutverk sérstakra umræðna að fjalla um ákveðin málasvið og þar sem fá slík svið heyra undir forsætisráðherra beint er eðlilegt að hann taki þátt í færri sérstökum umræðum.

Fyrrverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir tók t.d. ítrekað ekki þátt í neinni sérstakri umræðu heilu missirin, hún tók að vísu þrjár sérstakar umræður að meðaltali á ári á síðasta kjörtímabili. Hv. þingmaður sér því að ekki vantar mikið upp á það meðaltal og eflaust munum við ná að finna tíma til að vinna upp það meðaltal svo hv. þingmaður geti verið sáttur, ella getur hann beðið um sérstaka umræðu um sérstakar umræður og ég skal reyna að taka vel í þá beiðni.