143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[10:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég minni hæstv. ráðherra á að frestur til framlagningar frumvarpa er 31. mars. Við höfum haft langan tíma til að endurskoða veiðigjöldin varðandi þær tegundir sem vitað var að þyrfti að endurskoða.

Mér þykir það mjög ófagleg vinnubrögð að láta lækkun veiðigjalda og afnám veiðigjalda, sem engar tölur liggja fyrir um og engir útreikningar eða kostnaðarmat fyrir ríkið, fljóta með í breytingu á lögum um fiskveiðistjórn og að ekki sé hægt að fá veiðigjaldsnefnd fyrir atvinnuveganefnd til að fjalla um þessi mál. Lögin standa klár og skýr. Lögum samkvæmt er skylda að veiðigjaldsnefnd leggi til við ráðherra breytingu á almenna veiðigjaldinu og sérstaka veiðigjaldinu og ráðherrann komi síðan með frumvarp þar að lútandi fyrir 1. júlí ár hvert.

Úr því að talið berst að faglegum vinnubrögðum held ég að hæstv. ráðherra ætti (Forseti hringir.) að reyna það sjálfur en benda ekki alltaf á einhverja aðra (Forseti hringir.) sem gerðu hlutina hugsanlega (Forseti hringir.) ekki nógu vel að hans mati.