143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

endurskoðun kosningalaga.

[10:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég get ekki tekið undir allt sem kom fram í máli hans, t.d. ekki að ríkisstjórnir sitji ekki í samræmi við lýðræðislega niðurstöðu heldur lagalega niðurstöðu. Niðurstaðan í lögunum er niðurstaða lýðræðislegrar umræðu. Lögin byggja á því sem gerist á þessari samkomu sem er lýðræðislega kjörin.

Mér finnst ansi langt seilst í gagnrýni á núverandi fyrirkomulag að halda því fram að ríkisstjórn sitji í ljósi lagalegrar niðurstöðu. Ég hvet þingmenn til að nálgast verkefnið öðruvísi, með mikilli virðingu fyrir umræðunni.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að við eigum stöðugt að endurskoða þessa hluti. Ég held hins vegar að það eigi ekki bara að gerast í skjóli eða umboði ríkisstjórna heldur í skjóli og umboði þingsins alls. Kosningalöggjöfin okkar verður að vera þannig að um hana ríki full sátt og henni verði ekki breytt þegar ríkisstjórnir koma eða fara. Ég held að það sé mikilvægt.

Við höfum gert breytingar í ágætri sátt á Alþingi Íslendinga hvað varðar kosningalöggjöfina en ég held líka að hv. þingmaður og við öll verðum að horfast í augu við það að hún verður aldrei fullkomin. Hún verður aldrei þannig að við getum sagt að hún sé nákvæmlega eins og hún á að vera.

Ég held að það sé mikilvægt, og árétta það sem ég sagði áðan, að slík endurskoðun eigi sér stað á vettvangi þingsins. Hún á að eiga sér stað í umboði allra þingmanna og með samstöðu allra þingmanna. Annars verður ekki um hana raunveruleg sátt. Ég lýsi mig reiðubúna til slíkrar endurskoðunar og stöðugrar endurskoðunar. Ég held að við eigum ekki að taka það upp endrum og eins, heldur vera í stöðugri endurskoðun. Ég held að við séum samt ekki alveg sammála um það hvernig við eigum að nálgast það og ég er sannarlega ekki sammála því að hér sitjum við á grundvelli lagalegrar niðurstöðu heldur lýðræðislegrar niðurstöðu.