143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

endurskoðun kosningalaga.

[11:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aftur minni ég á það og hvet þingmenn til að ræða þessi mál sérstaklega í þeirri nefnd sem fjallar um stjórnarskrána okkar á vettvangi Alþingis. Þar er kjörið tækifæri til að fara yfir það sem við höfum oft rætt hér, sanngirnina og réttlætið í atkvæðavæginu.

Síðan tek ég undir með hv. þingmanni, ég hef ítrekað sagt að ég haldi að það sé meira um að kenna stjórnmálamenningu en lagalegri eða lýðræðislegri niðurstöðu. Það er sú staðreynd sem hefur verið allt of rík í íslenskri stjórnmálahefð að mínu mati að meiri hlutinn taki allt, meiri hlutinn stjórni og meiri hlutinn ráði.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að efla það samráð sem við getum, tryggja að fleiri hafi aðkomu að verkefnum og ég bíð enn eftir þeim degi að þannig verði það á hinu háa Alþingi.