143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði skýrslu minni til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál. Það er rík hefð fyrir þessari skýrslugjöf á Alþingi og umræðum þeim sem á eftir fylgja. Er það ánægjulegt að geta lagt fram eins efnismikla skýrslu og hér er á borðum og er það von mín að um efni hennar geti átt sér stað góðar umræður í dag.

Staða Íslands í alþjóðasamfélaginu, hlutverk okkar og áherslur eru ákaflega mikilvæg umræða, ekki bara á Alþingi heldur í samfélaginu öllu. Er hægt að fullyrða að vandfundin sé sú þjóð sem er eins vel upplýst um alþjóðamál og eins meðvituð um stöðu sína og hlutverk í alþjóðasamfélaginu og við Íslendingar.

Við erum sjálfstæð, megnug og velmegandi þjóð sem hefur kosið að eiga náið samstarf við nágranna sína, vinaþjóðir og bandamenn. Um meginstef utanríkisstefnu Íslands ríkir í öllum grundvallaratriðum sátt og hefur svo verið nánast óháð því hvaða stjórnvöld sitja hverju sinni þótt um einstaka ákvarðanir geti vissulega verið skiptar skoðanir.

Gegnumsneitt hafa íslensk stjórnvöld leitast við að auka hagsæld á Íslandi með því að opna markaði fyrir íslenska framleiðslu, menningu og hugvit. Með sama hætti hafa stjórnvöld talað röddu Íslands á alþjóðavettvangi svo sérstaða okkar skiljist og hagsmunir verði tryggðir. Þá er öryggi lands og þjóðar eitt af meginhlutverkum stjórnvalda. Ísland hefur ávallt farið þá leið að taka þátt í alþjóðasamstarfi, gert samninga við bandamenn okkar um varnir landsins og talað fyrir friði og mannréttindum.

Í þessari upptalningu birtast meginstefin sem slegin hafa verið í íslenskri utanríkispólitík. Þetta eru sömu stef og meiri hluti þjóðar hefur fylkt sér um og þetta er leiðarljós fólksins sem skipar utanríkisþjónustuna.

Með leyfi forseta:

„„Permanent Mission of Iceland, góðan dag,“ segir silkimjúk og traustvekjandi kvenmannsrödd í símann. Mér líður strax betur, kynni mig og segist vera í nokkrum vanda. „Ég er staddur í Mombasa, vegabréfs- og farmiðalaus. Getið þið hjálpað?“ — „JESÚS,“ segir hljómþýða röddin — missir örlítið taktinn en er snögg að ná fyrri yfirvegun. „Jú, við getum örugglega bjargað því.“ Samtalið heldur áfram og námsmaðurinn leggur á skömmu síðar, rólegur og sæll í bragði.“

Þessi tilvitnun er í bloggskrif starfsmanns utanríkisþjónustunnar. Hvers vegna er það nefnt í ræðustóli Alþingis? Jú, utanríkis- og alþjóðamál eru lifandi málaflokkur og munu úrlausnir vandamála og stefnubreytingar alltaf taka mið af samspili hagsmuna og hugmynda um samfélag okkar. Með nýjum tímum fylgja ný vinnubrögð en grunnurinn er ætíð sá sami.

Þannig hefur utanríkisþjónustan orðið að bregðast við stöðugt flóknari viðfangsefnum í sítengdu samfélagi. Þróun í upplýsingamálum er ör samfara tækninýjungum og auknum kröfum. Felur þetta í sér nokkrar áskoranir en jafnframt afar gott tækifæri til að efla tengsl utanríkisþjónustu og almennings.

Að þessu hefur verið unnið ötullega innan utanríkisþjónustunnar. Markmiðið er að bæta upplýsingamiðlun um utanríkisstefnu Íslands til almennings þannig að almenningur geri sér betur ljóst hve mikilvægt starf utanríkisþjónustan innir af hendi.

Hver vegur að heiman er vegurinn heim.

Íslendingar eru víðförul þjóð og íslenska utanríkisþjónustan hefur sett öryggi Íslendinga á oddinn. Borgaraþjónusta virkar hvar í heiminum sem fólk er statt og ef eitthvað bjátar á hjálpum við til. Þetta er forgangsmál utanríkisþjónustunnar. Fátt gefur meira en aðstoð við samborgara okkar sem finna sig í aðstæðum sem fæst okkar vildu vera í en mörg okkar hafa heyrt af eða reynt á eigin skinni. Í hverri viku koma upp mál þar sem reynir á útsjónarsemi starfsmanna utanríkisþjónustunnar við að koma til aðstoðar þeim sem eru í neyð. Eðli málsins samkvæmt fara þessi mál hljótt en þó er þessi starfsemi meðal mikilvægustu verkefna utanríkisþjónustunnar.

Það er mikilvægt að halda því til haga að starfsemi borgaraþjónustunnar byggist að töluverðu leyti á neti kjörræðismanna sem utanríkisþjónustan hefur komið upp. Kjörræðismenn Íslands eru 244 talsins og staðsettir víðs vegar um veröldina. Oftast eru þetta erlendir ríkisborgarar sem eru boðnir og búnir að leggja á sig ómælt erfiði í sjálfboðavinnu við að rétta Íslendingum hjálparhönd ef þess er óskað. Ræðismennirnir eru þannig hinn framlengdi armur Íslands á staðnum. Er það Íslendingum ómetanlegt að geta reitt sig á aðstoð þessara útvarða okkar þegar þörf er á.

Farsæl þróun mála á norðurslóðum skiptir miklu máli fyrir Ísland. Af aðildarríkjum Norðurskautsráðsins er Ísland eina ríkið sem býr við það að allir borgarar þess búi á norðurslóðum. Menning og sjálfsvitund okkar verður ekki slitin úr þessu samhengi og þannig eru málefni norðurslóða kjarninn í utanríkisstefnu Íslands.

Mikilvægi þessa málaflokks sést einna best á því að fyrir nokkrum mánuðum var stofnuð sérstök ráðherranefnd um málefni norðurslóða sem tryggja á samræmda hagsmunagæslu Íslands á þessu sviði. Við munum kortleggja tækifæri sem skapast með opnun siglingaleiða um norðurslóðir og í þessu samhengi er mikilvægt að árétta að megináhersla er lögð á að verkefni þeim tengd verði vistuð hérlendis og að möguleikar til þessa séu nýttir í hvívetna.

Þannig á sér til dæmis stað náið samstarf milli innlendra aðila varðandi samgöngumál, auðlindanýtingu, leit og björgun og borgaraleg öryggismál. Á þessum grundvelli er verið að meta tækifæri fyrir alþjóðlega leitar- og björgunarmiðstöð á Íslandi. Þetta er afar mikilvægt verkefni og er því brýnt að vanda til verka og viðhalda þeirri sátt sem verið hefur um þessa vinnu hingað til.

En tækifærin standa ekki ein og sér. Við Íslendingar vitum allra þjóða best að skjótt skipast veður á norðurslóðum. Auknum siglingum og annarri starfsemi fylgja hættur og verðum við því að vera fremst í flokki við að láta vernd á umhverfi og lífríki ráða för. Allt verður að haldast í hendur við að skapa aðstæður sem tryggja hagvöxt, sjálfbærni og öryggi fólks. Í skýrslu minni koma fram áhugaverðar staðreyndir sem setja þessa hluti í samhengi.

Þannig er rakið að ein mesta umhverfis- og öryggisógnin á hafinu við Ísland kemur til af ört vaxandi skipaumferð. Undanfarin ár hefur verið stöðugur straumur skemmtiferðaskipa sem legið hefur norður með ísröndinni við Grænland, vestur af Íslandi, inn í firði þar sem ferðamenn komast í nálægð við náttúruöfl norðurheimskautsins. Þannig hefur farþegum skemmtiferðaskipa sem heimsækja Ísland fjölgað úr 30 þúsundum árið 2002 í um 90 þúsund árið 2012.

Það sem meira er um vert er að skipin sjálf hafa farið stækkandi á sama tíma. Það felur í sér miklar áskoranir. Því er afar brýnt að eftirlits- og öryggismál séu með besta móti, viðbragðsgeta til staðar og samvinna allra aðila traust. Ef hættu ber að höndum í þessum efnum megum við okkar lítils ein okkar liðs. Er því algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að vera við öllu búin og geta reitt okkur á alþjóðlega samvinnu. Þessum áherslumálum hefur verið haldið á lofti á fundum með erlendum ráðamönnum og á þeim ráðstefnum sem við höfum tekið þátt í um þessi efni.

Annað mikilvægt mál sem ber að nefna sérstaklega í þessu samhengi er jafnréttismál á norðurslóðum. Utanríkisráðuneytið leiðir í samvinnu við Jafnréttisstofu og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar auk annarra undirbúning að ráðstefnu um jafnréttismál á norðurslóðum sem haldin verður á Akureyri í október 2014. Á ráðstefnunni verður stefnt saman áhrifafólki úr stjórnmálum, háskólasamfélaginu, viðskiptalífinu og félagasamtökum til að ræða samfélagslegar breytingar og ólíka stöðu kynjanna á norðurslóðum. Verður rætt hvernig megi efla þátttöku kvenna í stefnumótun og ákvarðanatöku um málefni svæðisins. Er hér um brýnt mál að ræða sem ekki hefur hlotið næga athygli. Er það von okkar að ráðstefnan muni stuðla að ákveðinni vitundarvakningu á þessu sviði.

Norðurskautsráðið er þungamiðja fjölþjóðasamstarfs um norðurslóðir og mikilvæg skref í að efla það starf eru til að mynda æfingar á næsta ári á grundvelli samstarfssamnings um viðbrögð og viðbúnað gegn olíumengun. Eins og kemur fram í skýrslunni mun það styrkja enn frekar hagnýtt samstarf ríkjanna og aukið umhverfisöryggi.

Áhersla ríkisstjórnarinnar á norðurslóðir endurspeglast í fleiri þáttum. Um þessar mundir fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og er sérstök áhersla lögð á Norðurlandasamstarfið auk þess að efla samstarf við grannþjóðir okkar í norðvestri. Í samstarfi við Færeyinga og Grænlendinga viljum við nýta okkur þau tækifæri sem skapast munu í framtíðinni með opnun siglingaleiða og til skynsamlegrar auðlindanýtingar. Liður í þessu hefur verið að styrkja enn frekar tengsl okkar við þessar þjóðir.

Mikilvægum áfanga var náð í þessu í lok árs 2013 þegar opnuð var íslensk sendiskrifstofu í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Samskipti okkar við Grænlendinga eru nú í miklum blóma og bindum við miklar vonir við að viðskipti landanna muni vaxa og dafna á næstu missirum.

Stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkisviðskiptum tekur mið af þeim öru breytingum sem eru að verða á efnahagskerfum heimsins. Í dag er heimurinn allur eitt stórt markaðssvæði. Það þýðir að hægfara stöðnun á hefðbundnum mörkuðum Íslendinga er ríkur hvati til að leita nýrra markaða. Þannig hafa nýir markaðir fyrir íslenskan varning og hugvit orðið til á undraskömmum tíma. Ör hagvöxtur og hröð þróun í alþjóðaviðskiptum veitir okkur spennandi tækifæri í fjarlægum nýmarkaðsríkjum. Aukinn kaupmáttur í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku og breyttar neysluvenjur fólks eru óhjákvæmilegur hluti alþjóðavæðingarinnar.

Íslendingar standa vel að vígi til að nýta möguleikana sem í hnattvæðingunni birtast. Við sitjum þó ekki ein að tækifærunum. Þau eru líka vel sýnileg keppinautum okkar. Samkeppni um markaðsaðgang er mikil og vegna þráteflisins í samningaviðræðum aðila innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur orðið mikil aukning í gerð fríverslunarsamninga á undanförnum árum. Þar er oftar en ekki kapphlaup um aðgengi. Þannig geta tafir á gerð samninga þýtt það að farið er á mis við tækifæri.

Í þessu samhengi er vert að árétta að staða Íslands í utanríkisviðskiptum er að mörgu leyti öfundsverð. Aðkoma okkar að kjarnamarkaðssvæði okkar, innri markaði Evrópu, er tryggð með EES-samningnum. Viðskipti okkar við hina stærstu viðskiptablokkina, Bandaríkin, standa á gömlum og grónum merg og bendir margt til þess að þar liggi ný tækifæri á næstunni.

Þá njótum við þess að hafa átt í farsælu samstarfi innan Fríverslunarsamtaka Evrópu. Ísland sem fer með formennsku á vettvangi EFTA um þessar mundir er þannig hluti af víðfeðmu neti fríverslunarsamninga sem ná til stórs hluta heimsins. Þar að auki — og þetta er afar mikilvægt að árétta — höfum við tækifæri til að sækja á nýjar lendur á eigin forsendum. Þetta sannaðist fyrir skemmstu með metnaðarfullum fríverslunarsamningi okkar við fjölmennustu þjóð heims, Kínverja, sem og eina þá fámennustu, frændur okkar í Færeyjum með Hoyvíkur-samningnum.

Staða okkar er öfundsverð því að í henni felst frelsi og mikill sveigjanleiki sem er íslensku efnahagslífi gríðarlegur styrkur. Þessum sveigjanleika og drifkrafti væri ekki til að dreifa nema vegna sjálfstæðis okkar til athafna á sviði utanríkisviðskipta. Þessu hefur ekki verið nægilega haldið á lofti á undanförnum árum.

Utanríkisráðuneytið mun halda áfram að kanna frekar hvernig nýta megi þá möguleika sem okkur standa til boða og hvernig tengsl við ný markaðssvæði verði styrkt. Áherslan verður lögð á gerð fleiri fríverslunarsamninga, bæði tvíhliða og á vettvangi EFTA. Þá verður einnig leitað leiða til að fullnýta möguleika sem felast í þeim fríverslunarsamningum sem Ísland á þegar aðild að.

Utanríkisráðuneytið mun áfram fylgjast grannt með þróun mála í viðræðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Á vettvangi EFTA hefur verið rætt um viðbrögð við hugsanlegum fríverslunarsamningi ESB og Bandaríkjanna, m.a. á ráðherrafundi EFTA í nóvember á síðasta ári. Var í kjölfar hans leitað eftir samráði við Bandaríkin um þær viðræður sem hafnar eru.

Of langt mál er að tiltaka allar þær viðræður sem standa yfir eða eru á döfinni á vettvangi EFTA. Bendi ég á skýrsluna í því samhengi sem rekur til að mynda vinnu að viðræðum við Indland og Víetnam, endurskoðun fríverslunarsamnings við Tyrkland, væntingar um endurskoðun fríverslunarsamnings við Kanada og vonir til nýs samkomulags við Mexíkó, svo eitthvað sé nefnt.

Á alþjóðavettvangi fer nú fram mikilvægt starf við að hrinda í framkvæmd ákvörðunum ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á síðasta ári. Mun Ísland meðal annars leggja áherslu á að koma afnámi ríkisstyrkja í sjávarútvegi á dagskrá. Ef litið er til nærsvæðis Íslands standa vonir til þess að unnt verði á næstu misserum að dýpka samskipti Íslands við Grænland enn frekar og ekki síst á sviði viðskipta eins og áður var minnst á.

Ef litið er til þeirra leiða sem stjórnvöld geta nýtt til að efla sókn á erlenda markaði eru vonir bundnar við starfshóp utanríkisráðuneytisins sem ætlað er að meta skipulag útflutningsþjónustu, styrkingu markaðsstarfs og aðkomu hins opinbera í þessu tilliti. Þannig er verið að kortleggja alla starfsemi og fjármuni og gerðar verða tillögur um hvernig megi best nýta sameiginlega krafta til markvissrar markaðssetningar, landkynningar og samhæfingar.

Í þessari yfirferð minni er einnig rétt að minnast á aðra samningagerð sem utanríkisráðuneytið vinnur ötullega að og tryggir Íslendingum aðgengi að erlendum mörkuðum. Er þar einkanlega átt við fjárfestingarsamninga, loftferðasamninga og sértækari samninga er varða efnahagssamstarf við önnur ríki. Þá er aðstoð við íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum áfram eitt af mikilvægari verkefnum ráðuneytisins og hefur sú aðstoð sannað gildi sitt, ekki síst með fulltingi undirstofnunar eins og Íslandsstofu og með neti reynslumikilla viðskiptafulltrúa í sendiráðum vítt og breitt um heiminn.

Samskipti Íslands við Evrópusambandið eru áfram í öndvegi þótt forsendur hafi breyst. Farsælt samstarf Íslands og Evrópusambandsins snýst meðal annars um EES-samstarfið. Svo hefur verið um 20 ára skeið og svo verður í náinni framtíð. Nauðsynlegt er að setja þessa hluti í samhengi þegar kemur að umræðu um Ísland og Evrópu.

Evrópa er einn okkar mikilvægasti markaður og við viljum áfram tengjast Evrópu og Evrópusambandinu traustum böndum. Við höfum sótt fram á sameiginlegum evrópskum markaði, markað okkur sérstöðu og rekið þar sterka hagsmunagæslu. Þessu höfum við getað áorkað vegna þess trausts sem ríkir milli okkar og bandamanna okkar í Evrópu — þótt stundum geti þykknað upp eins og gerði nýverið með sjálftöku Evrópusambandsins og annarra strandríkja úr makrílstofninum.

Samstarf Íslands og Evrópusambandsins á vettvangi EES er rakið með greinargóðum hætti í skýrslunni. Samningurinn er ekki án áskorana, það vitum við, sem eðlilegt er í svo umfangsmiklu samstarfi. Í því ljósi ber að fagna ákvörðun ríkisstjórnarinnar um Evrópustefnu sem byggist á efldri hagsmunagæslu á vettvangi EES-samningsins og annarra gildandi samninga Íslands og Evrópusambandsins. Í stefnunni er lögð áhersla á skilvirka framkvæmd EES-samningsins, m.a. með því að efla samráð innan stjórnsýslunnar og við Alþingi.

Áhersla verður á áframhaldandi sjálfstæð, virk og náin samskipti og samstarf við Evrópusambandið og aðildarríki þess. Minnt er á að um þessar mundir eru 20 ár frá því samningurinn tók gildi og því ekki úr vegi að unnið verði mat á hagsmunum Íslands af EES-samningnum, eins og boðað hefur verið. Ég hlakka til að starfa náið með Alþingi að þessum mikilvægu hagsmunamálum á næstu missirum.

Virðulegi forseti. Með alþjóðlegri þróunarsamvinnu er stuðlað að útrýmingu fátæktar, aukinni hagsæld og friði í heiminum. Rödd Íslands og framlag skiptir máli fyrir alla þá sem við eigum samstarf við. Þetta endurspeglast í þeim áherslum sem lagðar hafa verið til grundvallar í framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við þróunarsamvinnuáætlun 2013–2016. Þar er áhersla lögð á stuðning við þrjú meginsvið; félagslega innviði, auðlindir og frið, auk tveggja þverlægra málefna; jafnréttismála og umhverfismála. Allt eru þetta svið þar sem Íslendingar hafa margt fram að færa.

Í lok síðasta árs var tilkynnt um óhjákvæmilegan niðurskurð í útgjöldum til þróunarmála á þessu ári. Skal það ítrekað að áfram er stefnt að því að veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu þótt það verði ekki eins skjótt og gert hafði verið ráð fyrir. Í þessu samhengi er vert að rifja upp ríkan stuðning almennings við þróunarsamvinnu.

Okkur hefur blöskrað atburðarásin á Krímskaga á undanförnum vikum. Atburðirnir í Úkraínu og ógnarleg framganga Rússlandsstjórnar setur málefni friðar, öryggis og stöðugleika í okkar heimshluta í samhengi. Hefur verið bent á að oft hættir okkur til að taka slíkum hlutum sem gefnum. Yfirstandandi og harðnandi deila hefur nú kippt okkur til baka í veruleika sem við töldum okkur hafa yfirgefið fyrir þó nokkrum árum, jafnvel áratugum.

Á sama tíma og Rússlandsstjórn fer sínu fram í trássi við alþjóðalög og eigin skuldbindingar eykst samtakamáttur þeirra sem fordæma aðgerðirnar og senda sterk skilaboð um að framganga Rússa sé fullkomlega óásættanleg. Hef ég gert það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og átt um það lögbundið samráð við utanríkismálanefnd. Um leið og við fordæmum framferði Rússa minnum við á nauðsyn þess að stjórnvöld í Kænugarði standi vörð um réttindi allra íbúa landsins. Vonum við að unnt verði að ná sáttum þar sem hagsmunir allra Úkraínubúa séu virtir og alþjóðalögum framfylgt.

Við fylgjumst afar vel með framvindu mála á Krímskaga og eru þau mál í miklum forgangi í utanríkisráðuneytinu um þessar mundir. Þessi deila hefur ekki aðeins vakið upp gamla drauga og aukið samtakamátt. Hún hefur líka fært okkur heim sanninn um að allar þjóðir, hversu stórar eða smáar þær teljast vera, verða að láta röddu sína heyrast hátt og skýrt þegar rangindi eru viðhöfð. Það mun Ísland gera hér eftir sem hingað til. Ísland mun þannig leggja sín lóð á vogarskálarnar og styðja refsiaðgerðir bandamanna okkar gagnvart Rússum sem og að gera hlé á fríverslunarviðræðum sem við höfum átt við Rússland, Kasakstan og Hvíta-Rússland á vettvangi EFTA. Margt smátt gerir eitt stórt.

Þótt með óbeinum hætti sé varpa atburðirnir í Úkraínu ljósi á okkar eigin stöðu. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu sé að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Það er grundvallaratriði í samskiptum þjóða að alþjóðalög séu virt og að þjóðir leysi deilumál með friðsamlegum og diplómatískum hætti. Samstarf þjóða er mikilvægt til þess að takast á við þær ógnir sem þjóðir standa frammi fyrir þvert á landamæri og leikreglur alþjóðakerfisins.

Í þessu samhengi ber að nefna að það er mikilvægt að tryggð sé rík sátt um framtíðarfyrirkomulag stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum. Á síðasta þingi starfaði nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og sátu í henni þingmenn allra flokka sem áttu þá sæti á Alþingi. Hefur þessi nefnd skilað endanlegum tillögum ásamt bókunum til mín og er þar þjóðaröryggi skilgreint víðtækt. Tekur þjóðaröryggi þannig til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis. Er það metnaðarmál að tryggja framgang þessa máls. Á grundvelli tillagna nefndarinnar verður senn lögð fram tillaga til þingsályktunar fyrir Alþingi um þjóðaröryggisstefnu Íslands.

Fyrir fámennt eyríki sem Ísland er ákaflega mikilvægt að eiga trausta bandamenn og bakhjarla. Þannig tryggir Ísland öryggi sitt og varnir með samstarfi við önnur ríki. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru áfram meginstoðir í varnar- og öryggissamstarfi Íslands en þar fyrir utan hefur samstarf við grannþjóðir okkar farið vaxandi á undanförnum árum. Spennandi verkefni eru fram undan á þeim vettvangi og ríkur pólitískur vilji stendur til að leita nýrra leiða til að efla það samstarf.

Þannig samþykktum við utanríkisráðherrar Norðurlandanna sameiginlega yfirlýsingu í Reykjavík á dögunum um að styrkja enn frekar samstarf um utanríkis- og öryggismál. Með yfirlýsingunni og öðrum svipuðum yfirlýsingum að undanförnu hefur skapast sterk umgjörð um hagnýtt starf norrænu ríkjanna á þessu sviði.

Hafa Íslendingar orðið áþreifanlega varir við slíka styrkingu, nú síðast í febrúarmánuði þegar brotið var blað í loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland þegar flugsveitir frá Finnlandi og Svíþjóð tóku þátt í loftvarnarþjálfunarverkefni í tengslum við loftrýmisgæsluvakt Noregs. Markaði það ákveðin tímamót í samstarfi landanna á þeim vettvangi og standa vonir til að unnt verði að efna til sambærilegra verkefna á næstu missirum.

Virðulegi forseti. Í þessari framsöguræðu minni um skýrslu mína um utanríkis- og alþjóðamál hefur verið tæpt á nokkrum atriðum sem teljast mega til forgangsmála. Þar að auki geymir skýrslan hafsjó af upplýsingum um fjölmörg önnur mál sem vert væri að ræða hér í dag en læt ég nú staðar numið.