143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra kom víða við í ræðu sinni og skýrslu. Væri hægt að fara í margt en ég ætla að staldra við eitt atriði og það varðar viðskiptahagsmuni Íslands. Ráðherrann nefndi meðal annars samskipti okkar við Bandaríkin í viðskiptalegu tilliti og að þau væru byggð á gömlum merg. Það er gömul saga og ný að það getur tekið langan tíma að byggja upp viðskiptatengsl og viðskiptasambönd en það getur tekið örskotsstund að eyðileggja þau.

Í byrjun febrúar sl. var greint frá því að innanríkisráðherra Bandaríkjanna hefði staðfest við Barack Obama forseta að hvalveiðar Íslendinga í viðskiptaskyni minnki skilvirkni samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu og nú stendur fyrir dyrum hjá forseta Bandaríkjanna að taka ákvörðun um refsiaðgerðir gagnvart Íslandi.

Því vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvað hafa íslensk stjórnvöld gert til að afstýra því að ríkisstjórn Bandaríkjanna grípi til þvingunaraðgerða gegn Íslandi? Hver er staðan á þessu máli? Hversu vel upplýst er ríkisstjórnin og utanríkisráðuneytið um það?