143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er gömul saga varðandi ágreining okkar og Bandaríkjamanna um hvalveiðarnar. Við þekkjum afstöðu Bandaríkjamanna þegar kemur að nýtingu á þeim stofni sem við höfum bent vísindalega á að óhætt sé að veiða úr, sé raunar mikilvægt að nýta líka og sé í samræmi við almenna nýtingarstefnu Íslands að nýta með sjálfbærum hætti þær auðlindir sem við höfum aðgang að og eigum.

Okkur er vel kunnugt um afstöðu Bandaríkjamanna til hvalveiða. Við höfum nú sem áður einbeitt okkur að því að koma réttum upplýsingum á framfæri við bandarísk stjórnvöld. Við höfum átt samtöl og samræður við fulltrúa stjórnvalda hvar og hvenær sem við höfum fengið tækifæri til. Við munum að sjálfsögðu halda því áfram. Að okkar mati hefur staða okkar batnað varðandi það að nú hafa ákveðin samtök sem ég man því miður ekki nafnið á akkúrat núna (Forseti hringir.) lýst því yfir að langreyður til dæmis sé ekki lengur stofn í útrýmingarhættu þannig að staða okkar batnar smám saman. (Forseti hringir.) En þetta er áhyggjuefni, ég tek undir með þingmanninum.