143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum lagt áherslu á það í gegnum tíðina að vera sjálfum okkur samkvæm þegar kemur að nýtingu auðlinda. Eflaust má færa fyrir því rök að verið sé að taka áhættu gagnvart viðskiptahagsmunum eða öðru slíku með því að heimila hvalveiðar. Við getum þó ekki horft fram hjá því að um leið og við hættum að beita vísindum og hættum að nota rökin um sjálfbærni og skynsamlega nýtingu auðlinda getur molnað undan öðru sem við erum að rökstyðja með þeim hætti.

Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga.

Mér var ekki kunnugt um þennan útflutning á afurðinni. Þegar menn hafa samt sem áður heimildir, hafa leyfi til að nýta ákveðna hluti hljóta þeir jafnframt að hafa leyfi til að selja þá. Ég get ekki séð að við getum gripið inn í það með nokkrum hætti.

Er þetta óheppileg tímasetning? Ég er ekki viss um að hún breyti svo miklu en vissulega mun hún draga athyglina aftur að hvalveiðum Íslendinga. Það er það sem er kannski áhyggjuefni ef má orða það þannig, en ég vil meina að staða okkar gagnvart hvalveiðum sé betri núna en hefur verið lengi vegna betri upplýsinga um stofnstærðir og annað.