143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er snar þáttur í utanríkispólitík að þeir sem fara fyrir hönd þjóðarinnar tjái sig. Það er stefnumarkandi. Mér finnst áhyggjuefni að forseti Íslands tjáir sig mjög virkt um utanríkismál og stefnu Íslands í utanríkismálum án þess að hafa í raun og veru umboð til þess.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvað honum fyndist um það ef forseti Íslands færi um allar jarðir og boðaði til dæmis Evrópusambandsaðild Íslendinga. Hann gæti alveg verið þeirrar skoðunar. Yrði hæstv. utanríkisráðherra sáttur við það?

Mér heyrist af svörum hæstv. ráðherra að í sjálfu sér sé ekkert virkt samráð við forseta Íslands um það hvernig hann eigi að tjá sig um utanríkismál og hann sé þar af leiðandi ekki beinlínis að túlka stefnu ríkisstjórnarinnar. Það finnst mér áhyggjuefni. Væri ekki tilefni til þess að efna til slíks samráðs?

Svo þarf líka að athuga það að forseti Íslands gerir meira en bara að tjá sig, hann beitir sér til dæmis mjög virkt í norðurheimskautsmálum. Finnst hæstv. ráðherra það í lagi? (Forseti hringir.) Erum við kannski komin á þann stað að forseti Íslands verður einfaldlega að (Forseti hringir.) koma hingað niður á þing og taka þátt í umræðum og andsvörum?