143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ekki virkt samráð við forseta Íslands um utanríkisstefnu landsins enda á það ekkert að vera. Ríkisstjórnin fer með utanríkismál þjóðarinnar.

Það er sjálfsagt að uppljóstra því hér að fljótlega eftir að ég tók við embætti settist ég niður með forseta Íslands og ræddi þessi mál, fór yfir stjórnarsáttmálann, fór yfir það hvernig við ætlum að halda á okkar málum þannig að forseta Íslands er vel kunnugt um stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum.

Ég vil nú meina að forseti Íslands sé líka að gera ágæta hluti þegar hann talar erlendis. Ég vil meina að þótt okkur greini á um einstök orð hafi til dæmis sú ráðstefna sem forseti Íslands stóð fyrir sl. haust og verður aftur í haust, Arctic Circle, dregið mjög mikla athygli að stöðu Íslands á norðurslóðum og hjálpað okkur að sýna fram á hversu mikilvægt er að við séum þar í samstarfi. Það mætti nefna fleiri slík atriði (Forseti hringir.) en það er alveg skýrt af minni hálfu og ég hef komið því á framfæri við forsetann og samstarfsaðila erlendis að það er ríkisstjórnin sem fer með utanríkismál.