143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet þingmenn og aðra til að hlusta á upptöku af þessum fundi. Ég er ekki að saka hv. þingmann um neitt. Ég tek fram að fréttaflutningurinn af þessum fundi er kannski ekki alveg í samræmi við það sem forsetinn sagði.

Ég held að orð forseta hafi að mörgu leyti verið hófleg. Hins vegar má velta fyrir sér hvort það hafi ekki verið óheppilegt að taka þessa orðræðu við norska ráðherrann þarna. Ég get alveg verið á báðum áttum með hvort það hafi verið heppilegt. Við megum samt ekki gleyma því að skilaboðin sem felast í þessu og sem ég sagði í yfirlýsingu á fésbókarsíðu minni í gær eru að mjög mikilvægt er að við reynum eftir fremsta megni að halda norðurskautssamstarfinu jafn góðu og það er í dag. Um leið og það kemur brot í það, hvort sem er af öryggissjónarmiðum, náttúrunýtingarsjónarmiðum eða öðru, held ég að voðinn sé vís. Þar af leiðandi held ég að við eigum eins lengi og við getum (Forseti hringir.) að halda þessu samstarfi, en á því eru samt takmörk. (Forseti hringir.) Við getum hins vegar ekki endalaust látið hlutina þróast í farveg eins og hjá Rússum.