143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segist vera á báðum áttum með það hvað honum finnist um að forseti Íslands hafi sett ofan í við fulltrúa norskra stjórnvalda á fundi í gær. Ég trúi því ekki að það sé hægt að vera á báðum áttum gagnvart því sem er að gerast í Úkraínu núna. Það á bara ekki að vera hægt. Sama hvar við Íslendingar komum núna, sama hvaða málefni er undir, eigum við að taka þátt í því að láta Rússa heyra það. Það er sama hvar við erum stödd. Það er ekkert málefni þannig að við eigum að taka það fram yfir þær þvingunaraðgerðir sem núna eru í gangi gagnvart Úkraínu.

Virðulegi forseti. Við getum ekki annars vegar sagt að við séum tilbúin að beita þvingunaraðgerðum o.s.frv. en vera svo til í að sitja í sætum klúbbum með Rússum hins vegar án þess að gagnrýna þá. Það eru þeir sem eru að skemma fyrir, ekki við sem gagnrýnum þá.