143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er varla að maður eigi að koma upp og svara svona vitleysu sem hér er sögð, að við séum eitthvað á báðum áttum gagnvart Úkraínu. (KaJúl: Þið eruð á báðum áttum.) Þetta eru þvílíkir útúrsnúningar og ekki þingmanninum sæmandi að halda slíku fram.

Ef þingmenn vilja fórna friði á norðurslóðum, fórna sameiginlegum hugsunum og vonum til þess að hægt sé að nýta náttúruauðlindir þar skynsamlega, fórna öryggis- og varnarsamstarfi sem gæti verið í uppsiglingu á norðurslóðum, styðja við það að menn fari þar með hernaði, sendi herskip á norðurslóðirnar til að gæta sinna hagsmuna þar, skal ég hlusta á hv. þingmenn.

Ég ítreka að eins lengi og við mögulega getum eigum við að halda þessu samstarfi þéttu saman en á því eru takmörk. Ég vona svo sannarlega að þróun mála í Úkraínu verði með þeim hætti á næstu vikum og mánuðum að við þurfum ekki að fórna þessu góða samstarfi því að þá munu allir tapa, ekki bara Rússar, ekki bara Úkraínumenn, og ekki bara Íslendingar, Bandaríkjamenn og Finnar. Það munu allir tapa því að þá verður norðurskautið nýjasti vígvöllur allra.