143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Óneitanlega hafa þessi verkefni, úr því að hv. þingmaður nefnir þau sérstaklega, fundið líka fyrir þeim niðurskurði sem við urðum að fara í. Við leituðumst þó við að hlífa þessum verkefnum eins mikið og við mögulega gátum. Þetta eru meðal þeirra forgangsverkefna sem við erum með í okkar þróunarstefnu.

Við finnum það að þessir fjórir skólar vekja mikla athygli, opna Íslandi ýmsar dyr þegar kemur að samstarfi við önnur ríki. Í skólana hafa komið fulltrúar einna 50, 60 þjóða, gríðarlega margir.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að við látum ekki harðræðið í efnahagsmálum okkar gera það að verkum að þessir skólar drabbist niður með einhverjum hætti. Það er eitt af því sem ég sannarlega vil reyna að koma í veg fyrir þrátt fyrir aðþrengdan fjárhag.